138. löggjafarþing — 6. fundur,  13. okt. 2009.

fjáraukalög 2009.

10. mál
[14:41]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að óska hæstv. fjármálaráðherra til hamingju með það samkomulag sem náðst hefur um Landsbankann og þann farveg sem bæði Kaupþing, Glitnir og Íslandsbanki eru í, svo ég nefni það nú, en ég verð náttúrlega sem stjórnarandstæðingur að benda á að þetta er allt of seint, mörgum mánuðum of seint, en guði sé lof að það er komið.

Nú hefur Alþingi samþykkt lög um ríkisábyrgð vegna Icesave. Hæstv. fjármálaráðherra er búinn að skrifa undir ákveðið samkomulag sem hlýtur að gilda, eða hvað? Þess sér hvergi stað í þessu frumvarpi og hæstv. ráðherra sagði meira að segja að sett yrðu um það sérstök lög. Eru það þá viðbótarfjáraukalög eða hvað er það? Þetta á að sjálfsögðu að vera í fjáraukalögum. Það er búið að skrifa undir ákveðna skuldbindingu, það er búið að setja um það lög sem Alþingi hefur samþykkt, það á að kynna fyrirvarana fyrir Bretum og Hollendingum og þeir eiga að samþykkja eða hafna. Það hefur ekkert slíkt gerist. Svo heyrir maður af einhverjum samningaviðræðum sem ekki er gert ráð fyrir í lagasetningunni.

Svo langar mig til að spyrja enn einu sinni: Hvar er tónlistarhúsið í þessu ágæta plaggi? Það á að halda áfram að byggja tónlistarhús, mitt í kreppunni, að eyða til þess dýrmætum gjaldeyri, júan sem hefur eflaust hækkað mikið, og flytja inn erlenda verkamenn til að sinna því, ekki Íslendinga, þetta eykur ekki einu sinni atvinnu á Íslandi. Hvar er þetta tónlistarhús í þessum fjáraukalögum? Dettur það ofan af himnum? Hefur enginn borgað það eða hvernig er það eiginlega?