138. löggjafarþing — 6. fundur,  13. okt. 2009.

fjáraukalög 2009.

10. mál
[14:43]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er ánægjulegt að heyra að hv. þingmaður er ánægður með þróun mála varðandi endurreisn bankakerfisins. Ég get tekið undir með honum að auðvitað hefðum við viljað sjá þetta ganga miklu hraðar og fyrr. En ég get ekki sannara orð sagt við hv. þingmann og hv. þingmenn en það að miðað við hversu óhemjuflókið og erfitt þetta ferli reyndist og miðað við hvernig andrúmsloftið var í þessum viðræðum í byrjun og samskiptin við erlenda kröfuhafa voru á útmánuðum þegar ég fór að sinna þeim, erum við komin geysilega langan veg ef við náum þessum þremur stóru málum öllum í höfn með samkomulagi að lokum. Það þarf ekki að fara út í einhliða úrskurði eða málaferli eða annað slíkt til að koma þessu í höfn. Og það er mikið til vinnandi í þeim efnum fyrir utan það að ég tel að niðurstaðan sé í öllum aðalatriðum mjög góð, bæði í þeim skilningi að ríkið sleppur vel frá málinu, líka í þeim skilningi að bankarnir leggja af stað vel fjármagnaðir og í tiltölulega góðum færum til að sinna sínum verkefnum.

Varðandi Icesave var það einfaldlega þannig að Alþingi heimilaði ríkisábyrgðina í sérlögum og það eru mýmörg dæmi um það. Þau standa þá sem fullgild lögheimild. Og komi til breytinga á því í tengslum við lokafrágang málsins yrði það væntanlega aftur þannig að lögheimildirnar yrðu í formi sérlaga. Bókfærslan á þeirri skuldbindingu er hins vegar flókið mál og ég gerði rækilega grein fyrir því í framsöguræðu með fjarlagafrumvarpi á dögunum að það er í skoðun milli Ríkisendurskoðunar, fjármálaráðuneytisins og Fjársýslunnar hvernig fara ber með það mál. Um það eru skiptar skoðanir milli fjármálaráðuneytis og þessara aðila annars vegar og kannski Alþjóðagjaldeyrissjóðsins hins vegar hvort þetta eigi að bókfærast sem árlegir vextir eða hvort bókfæra eigi heildarskuldbindinguna og eignfæra mögulegar eignir á móti og þar fram eftir götunum. Það er heilmikil flækja.

Tónlistarhúsið er eftir því sem ég best veit hérna við höfnina.