138. löggjafarþing — 6. fundur,  13. okt. 2009.

fjáraukalög 2009.

10. mál
[15:01]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ætli ég reyni ekki að svara bara jafnóðum, sérstaklega ef ég skyldi missa röddina endanlega þegar líður á daginn. Varðandi Vatnajökulsþjóðgarð er alls ekki um að ræða að þar sé fært úr stofnkostnaði yfir í rekstrarhalla heldur þvert á móti. Þar er í raun og veru fært yfir í fjárfestingu sem er annars eðlis, þ.e. gerð stjórnunar- og verndaráætlana og undirbúning. Talið var æskilegra að hraða framvindu þeirra þátta fremur en að ráðast í byggingaframkvæmdir eða stofnkostnað að svo stöddu.

Í öðru lagi um rekstrarhalla. Ég vek athygli á því sem hér er fjallað um varðandi þann þátt og því sem fram kom í framsöguræðu minni að nú er ætlunin að fara öðruvísi í þetta en stundum áður. Það verða ekki höggnir af skuldahalar þannig að menn geti svo bara haldið áfram heldur verður forsenda þess að gengið verði í að gera upp uppsafnaðan skuldavanda að gerðir verði samningar milli viðkomandi stofnunar, fagráðuneytis og fjármálaráðuneytis um aðlögun að rekstrarforsendum. Í tengslum við þá verði síðan tekist á við uppsafnaðan vanda og honum mætt í áföngum eftir því sem slíkri aðlögunaráætlun miðar fram. Málinu verði komið í fastmótaðan farveg og tekið á vandanum þannig að í raun má segja að skuldaafléttingin að einhverjum hluta sé gulrót sem menn hafa eftir að sækja ef tekið er á hlutum.

Breytingarnar varðandi vaxtagjöldin skýrast fyrst og fremst af þeirri aðferð sem nú verður notuð við að endurfjármagna bankana. Þá hækkar þessi vaxtakostnaðarliður ríkissjóðs en á móti lækkar vaxtakostnaðurinn sem áður var áætlaður að yrði á yfirteknum kröfum frá Seðlabankanum vegna daglána bankanna sem ekki verða nýttar í því skyni.

Ég held að samskipti fjármálaráðuneytisins og sveitarfélaganna séu komin í ágætishorf. Það er verið að byggja það upp með ýmsum hætti, búið að gera þar um samkomulag og sameiginleg vinna er að fara af stað. Að sjálfsögðu eiga tekjusamskiptin sjálf eftir að koma þar undir.

Varðandi hafnarframkvæmdir í Helguvík þá þekki ég það ekki nógu vel og vísa á samgönguráðherra. Ég skal skoða það mál. (Forseti hringir.) Að lokum fagna ég að sjálfsögðu virkri þátttöku fjárlaganefndar í að veita aðhald og ég minni á nýframkomna skýrslu um eftirlitshlutverk Alþingis í því sambandi.