138. löggjafarþing — 6. fundur,  13. okt. 2009.

fjáraukalög 2009.

10. mál
[15:03]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir svörin en kannski er einmitt það sem ég er að vara við að gerast núna. Nú spurði ég hæstv. fjármálaráðherra út í það sem gerðist í Vatnajökulsþjóðgarði. Hans upplýsingar eru þær, og ég efast ekki um að hann hefur þessar upplýsingar, að menn eru að færa til. Það vildi þannig til að á fundi fjárlaganefndar í morgun sagði ráðuneytisstjóri umhverfisráðuneytisins að menn hefðu farið að nota þessa peninga til að fjölga landvörðum. Þarna er því dálítið misræmi á milli.

Þess vegna ítreka ég einmitt að þessa hluti þurfum við að tryggja. Við spurðum sérstaklega út í þetta í morgun vegna þess að þetta er mér mikið hjartans mál, þeir hafa alltaf skorið niður þjóðgarðinn kringum Snæfellsjökul og aldrei gert neitt fyrir hann þannig að ég skoðaði þetta sérstaklega vel. Hann upplýsti okkur fjárlaganefndarmenn um að þetta væri vegna þess að menn hefðu verið að mæta þeirri miklu aukningu á ferðamönnum sem orðið hefur á svæðinu en þar hefur orðið 50% aukning. Þess vegna hafa menn fjölgað landvörðum en ekki farið í þessa uppbyggingu. Ég get ekki skilið þetta öðruvísi en að í raun sé verið að dekka rekstrarhalla. Hann upplýsti okkur hins vegar um að hann hefði haft umboð frá sínu yfirvaldi til að gera þetta með þessum hætti.

Rétt í lokin ætla ég að segja við hæstv. fjármálaráðherra að ekki skal standa á mér að leggja lið og vinna mína vinnu í fjárlaganefndinni. Mig langar samt að velta því upp við hann og biðja um svar við því hvort honum fyndist eðlilegt að nefndir fengju aðgang að bókhaldinu til að geta haft aðhald á því sem þær eru að gera. Við erum í rauninni alltaf að fá fregnirnar eftir á þegar skaðinn er skeður. Eins og ég benti á í minni ræðu er ekki búið að samþykkja ársreikning fyrir 2008 þannig að við vitum ekki upphafsstöðuna. Við verðum að hafa aðgang að þessum upplýsingum til að geta fylgt eftirlitshlutverki okkar eftir.