138. löggjafarþing — 6. fundur,  13. okt. 2009.

fjáraukalög 2009.

10. mál
[15:05]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég veit auðvitað ekki hvað hefur farið fram á fundi með ráðuneytisstjóra umhverfisráðuneytisins. Það kann vel að vera að þetta hafi auðveldað umhverfisráðuneytinu að halda úti óbreyttum eða meiri fjölda landvarða en ella hefði orðið og í sjálfu sér vefengir maður ekki þörfina fyrir það samanber ánægjulegar tölur um mikinn fjölda ferðamanna til landsins í sumar. Ég man þó að þau rök voru líka færð fram að menn mætu mikilvægara að halda áfram ýmiss konar undirbúnings-, stefnumótunar- og verndaráætlunarvinnu en að ráðast í frekari byggingarframkvæmdir. Það er auðvitað líka fjárfesting og undirbúningur fyrir framtíðina í þessu mikilvæga starfi sem unnið er af hálfu Vatnajökulsþjóðgarðs og annars staðar í þessum efnum.

Varðandi aðgang að ríkisbókhaldinu veit ég ekki alveg hversu langt menn ætla að fara í þeim efnum, hvort fjárlaganefnd á að geta skoðað tékkheftin hjá hvaða stofnun ríkisins sem er. Ég skal ekki segja hversu vinsælt það yrði. Hitt er annað og alveg sjálfsagt mál að það séu greiðir gagnvegir milli Alþingis, löggjafarvaldsins og fjárstjórnarvaldsins annars vegar og framkvæmdarvaldsins hins vegar í þessum efnum. Til mín komu góðir menn og vildu kynna bókhaldseftirlitshugmyndir sínar sem þeir höfðu unnið og voru prufukeyrðar af ýmsum stofnunum þar sem sett eru inn ýmis viðmið og gul ljós ef menn fara út af o.s.frv. Þeir töldu að þetta gæti verið hið mesta þarfaþing fyrir ríkið í heild. Það er ætlunin og liður í þeim aðgerðum sem nú er verið að hrinda í framkvæmd og byggja að hluta til á ábendingum frá vinum okkar í landstjóranum og hans mönnum að stórauka eftirfylgni með þessu, að fara í miklu tíðara stöðumat, jafnvel mánaðarlegt í staðinn fyrir ársfjórðungslegt. Slíkum upplýsingum er að sjálfsögðu rétt að koma áleiðis til fjárlaganefndar og eiga við hana hið besta starf. Þá geri ég ráð fyrir því að tillaga hv. þingmanns (Forseti hringir.) um að menn sitji ekki í annarri nefnd en fjárlaganefnd kæmi í góðar þarfir því þá yrði sjálfsagt nóg að gera þar.