138. löggjafarþing — 6. fundur,  13. okt. 2009.

fjáraukalög 2009.

10. mál
[15:10]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Við ræðum fjáraukalög fyrir árið 2009. Það er þarft að rifja upp hvernig fjárlögin fyrir 2009 voru gerð. Ég held að ég muni það rétt að á fyrstu dögum októbermánaðar árið 2008 mætti ég sem fjárlaganefndarmaður á fund hjá fjármálaráðherra þar sem hann kynnti fjárlögin og ég held að það hafi verið tveimur, þremur, fjórum dögum fyrir bankahrun. Viku eftir að þau voru lögð fram var ljóst að þessi fjárlög þurftu endurskoðunar við og þau voru raunar endurskoðuð strax í desember af þáverandi ríkisstjórn sem var skipuð fulltrúum Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks. Það var Árni Mathiesen, þáverandi hæstv. fjármálaráðherra, sem lagði frumvarpið fram.

Ég held að það skipti máli líka að átta sig á því að þá voru gerðar verulega miklar breytingar á þessu frumvarpi. Mikið þenslufrumvarp var birt í framhaldi af því góðæri sem menn héldu að hér væri. Þetta var endurskoðað í desember, þó þannig að tekin var ákvörðun um að fara ekki harkalega í niðurskurð strax heldur gefa okkur tíma, fara út í hallafjárlög með umtalsverðum halla einmitt til að sá niðurskurður sem fyrirsjáanlegur var við hrunið mundi ekki skella á okkur með of miklum þunga. Þá var að vísu skorið niður um 45 milljarða á frumvarpinu, ég vil taka það fram, ekki frá fjárlögum árið 2008 heldur frá frumvarpinu fyrir 2009 og áætlað að hallinn yrði 153 milljarðar. Þessi fjárlög voru síðan skoðuð að nýju nú á miðju sumri þar sem unnin var skýrsla og unnin gríðarlega mikil vinna sem ég held að menn megi alls ekki gera lítið úr. Hún verður vonandi fyrsta skrefið í nýjum vinnubrögðum þar sem þingið kemur að og vinnur forsendur fyrir fjárlagagerð. Unnin var ítarleg skýrsla þar sem þessi frægi stöðugleikasáttmáli var gerður. Haft var samráð við sveitarfélög og alla aðila vinnumarkaðarins, þar voru fulltrúar frá öllum flokkum. Þótt ekki hafi komið til formlegrar afgreiðslu í þinginu lágu þessar forsendur allar til grundvallar þegar menn fóru í frekari tekjuöflun og niðurskurð eða samdrátt til að reyna að halda hallanum í 153 milljörðum. Þetta tókst að vísu ekki og hér er því spáð að hallinn verði um 183 milljarðar á þessu ári og frá hæstv. fjármálaráðherra hafa komið fram ágætar skýringar á því hvers vegna svo er.

Eitt af því sem kemur mjög til álita og er umhugsunarefni er að við afgreiðum væntanlega fjáraukalög í desembermánuði þar sem veittar eru fjárheimildir til ýmissa hluta. Hér er í raun verið að staðfesta þann niðurskurð og þá tekjuöflun sem átti sér stað í sumar, það er verið að staðfesta ýmiss konar lagabreytingar eða ákvarðanir sem voru teknar á miðju ári. T.d. voru ákveðnar viðbótarvaxtabætur upp á 2 milljarða, sem var ákvörðun ríkisstjórnarinnar en í fjáraukalögunum er hún staðfest. Eins og ég sagði áðan voru ákveðnar tekjur og allt þetta er að koma inn fyrst núna. Við fjárlagagerðina fyrir þetta ár, 2009, var rætt að kannski væri full ástæða til að vera oftar með fjáraukalög, setja fjáraukalög jafnóðum og gera þyrfti breytingar, vegna þess að samkvæmt lögum eru engar fjárheimildir eða fjárútlát á vegum ríkissjóðs heimilar nema með samþykki Alþingis. Í þessu hefur verið ákveðinn vítahringur vegna þess að menn breyta auðvitað lögum og það er Alþingi sem slíkt sem gerir það. Það hefur útgjöld í för með sér, gildistíminn er á miðju ári þannig að það kostar að þá á að breyta fjárlögunum á hverjum tíma. Þetta þurfum við að leysa þegar við förum yfir fjárlagagerðina og hvernig formið er. Við þurfum að leysa þessa klemmu þannig að þingið brjóti ekki sjálft eigin lög varðandi hvernig fjármunum er ráðstafað. Það er einmitt sú vinna sem m.a. hv. þm. Ásbjörn Óttarsson ræddi áðan, þ.e. breytt vinnubrögð varðandi bæði fjárlagagerðina og það eftirlitshlutverk sem þingið hefur.

Við þessa skýrslugerð á miðju sumri voru sett ákveðin markmið, ekki bara fyrir árið 2009 og niðurskurðinn þá og tekjuaukninguna heldur líka fyrir árin fram til 2013, einkum fyrir árin 2010 og 2011. Margar af þeim ákvörðunum sem þar voru teknar, m.a. varðandi skattahækkanir, skila sér síðan inn í fjárlagafrumvarpið á þessu ári. Að því leyti eru þetta ný vinnubrögð, í framhaldi af framlagningu í þinginu vinnur framkvæmdarvaldið áætlunina og síðan kemur Alþingi aftur að þessu í gegnum fjárlaganefnd og getur þá ráðið lokaniðurstöðunni vegna þess að það er enginn vafi á því að Alþingi ákveður fjárlög og þá niðurstöðu sem þar kemur. Það gildir líka um þessi fjáraukalög, þ.e. þó að við í einhverjum tilfellum stöndum frammi fyrir gerðum hlutum þá er það fjárlaganefnd sem fjallar um þetta að lokum og lýkur málinu.

Ég ætla í sjálfu sér ekki að eyða miklum tíma í að fara yfir þau atriði sem hæstv. fjármálaráðherra gerði grein fyrir mjög ítarlega áðan. Mig langar frekar að ræða þessa málsmeðferð sem skiptir gríðarlega miklu máli og einmitt þetta eftirlitshlutverk sem fjárlaganefnd á að hafa. Ég vil þó taka fram það sem mér finnst oft gæta þegar við ræðum eftirlitshlutverk, þ.e. að það sem skiptir meginmáli í allri vinnu, hvort sem er í fjárlögum eða framfylgni á fjárlögum, er hvernig menn axla ábyrgð. Það má aldrei taka hana frá viðkomandi aðilum. Það á ekki að þurfa eftirlit til að hlutirnir séu í lagi. Eftirlitið ætti í sjálfu sér að vera tékk þar sem menn gá hvort allt sé ekki með eðlilegum hætti og síðan væri það gert upp eftir á.

Ég held að mikilvægasta ákvörðunin varðandi eftirlit með fjárlögum hafi verið að gefa út skýr skilaboð um að menn fái ekki heimildir til að fá leiðréttingar í fjáraukalögum. Það hefur viðgengist undanfarin ár. Stórar stofnanir hafa fengið allt upp í einn eða tvo milljarða og getað gengið að því vísu. Þær hafa kannski fengið einhverja viðbót í fjárlögum en vitað að það var ekki nóg, síðan treyst á fjáraukalögin og komið því í gegn með verulegar viðbætur á hverju hausti og þannig skornar niður úr snörunni í lok árs. Þessi vinnubrögð ganga ekki og við þurfum að breyta þeim. Mikilvægustu skilaboðin til forstöðumanna og þeirra sem vinna með fjárreiður ríkisins er að þessi möguleiki er ekki lengur fyrir hendi. Sama gildir með ónotaðar innstæður eða inneignir. Auðvitað er mjög mikilvægt að menn geti hagrætt og geymt fjárveitingar fram yfir áramót en það eru uppi hugmyndir um að setja þær reglur að menn geti farið með 4% yfir áramót og átt síðan inneign að hámarki um 10% af veltu. Þetta var allt stoppað núna frá árinu 2008 til 2009 einmitt til að hægt væri að fara skipulega yfir útgjöldin vegna þess að inneignirnar hjá viðkomandi stofnunum voru á milli 20 og 30 milljarðar. Ef það hefði allt verið notað núna til að rétta niðurskurðinn værum við í raun ekkert að leiðrétta reksturinn. Það sem skiptir máli er að ná leiðréttingum á rekstrinum.

Við í fjárlaganefndinni erum sammála um að þetta eftirlitshlutverk þarf að skerpa og fyrst og fremst með upplýsingastreymið frá viðkomandi aðilum. Eins og ég sagði áður skiptir þó meira máli að menn átti sig á því að ef þeir ætla að breyta fjárlögum þurfa þeir að koma með það inn í fjárlaganefnd, inn í þingið og óska eftir breytingum, og það þarf helst að gerast strax. Við getum annaðhvort verið með fleiri fjáraukalög eða, eins og hér er gerð tilraun til í sambandi við fjárlögin fyrir árið 2010, verið með afmarkaðar skilgreindar heimildir óráðstafaðar sem má þá nýta þannig að lög séu ekki brotin með því að ráðstafa þeim fjárheimildum.

Einnig hefur komið fram í umræðunni að ýmis álitamál eru í framsetningu á skuldbindingum, bæði hvað varðar ríkisábyrgðir og það hvernig menn færa t.d. Icesave-málið. Þetta þarf að skoðast mjög vel í fjármálanefnd. Aðalatriðið er að hafa samræmda reglu. Það hefur viðgengist bæði hjá sveitarfélögum og ríkinu samkvæmt bókhaldsreglum að fyrirtæki sem eru utan ríkissjóðs eða bæjarsjóða og hafa sjálfstæðan rekstur — þá er eingöngu færð skuldbindingin þ.e. leiga eða afnot það ár sem kemur til þeirrar greiðslu. Þannig hafa menn fjallað um Icesave-málið að þegar kemur að því að greiða fari menn í þetta. Auðvitað á skuldbindingin sem slík að standa einhvers staðar og hver hún er á hverjum tíma enda er kveðið á um í þeim fyrirvörum eða því lagafrumvarpi sem sett var að það eigi að vera mjög stíft og ítarlegt aðhald í sambandi við meðferðina á því máli.

Þá leiðir það líka hugann að því og við ræddum það í fjárlaganefndinni í morgun að eitt af því sem er mjög brýnt að gera er að búa miklu betur um umhverfi varðandi lánasýslu og skuldastýringu. Stærsti útgjaldaliðurinn í fjárlagafrumvarpinu fyrir árið 2010 eru vaxtagreiðslur og það þýðir að þetta er að hluta til í Seðlabankanum og að hluta til í fjármálaráðuneytinu. Þessi umsýsla verður því öll að vera mjög vönduð og skilvirk og það er ljóst að fjárlaganefnd þarf að fá miklu betra yfirlit yfir hverjar skuldirnar eru á hverjum tíma, hvernig vextirnir skiptast, af hverju er verið að greiða og hvaða skuldbindingar við höfum. Allt eru þetta hlutir sem við þurfum að laga smátt og smátt en það gerum við ekki á stuttum tíma og allra síst þegar við fáum inn verkefni sem tekur fleiri vikur eins og Icesave-málið gerði í sumar. Það hefur ýtt á undan okkur ákveðnum hlutum.

Hv. þm. Ásbjörn Óttarsson benti á að við höfum ekki haft tíma til að ræða ríkisreikninginn. Hann liggur hér í nokkurra hundruða blaðsíðna bók. Þar að auki höfum við fengið yfirlit yfir stöðu stofnana eftir fyrstu þrjá mánuðina og aftur eftir sex mánuði en við höfum ekki fengið tíma til að ræða stöðuna við einstakar stofnanir. Gallinn við þessa pappíra sem við höfum fengið er að þeir hafa yfirleitt borist 3–4 mánuðum síðar og eru þar af leiðandi ekki rauntölur. Oftast er þá allt of seint að grípa inn í ef menn ætla að breyta einhverju í sambandi við fjárlögin á viðkomandi ári. Það þýðir að raunupplýsingar úr bókhaldi stofnana þurfa að vera miklu nær í tíma til að eftirlitshlutverkið verði skilvirkt.

Ég vil þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir þessa framsetningu. Það er einkenni á þessum fjáraukalögum að engar breytingar eru á einstökum stofnunum. Þetta eru fyrst og fremst breytingar á stóru liðunum vegna ákvarðana sem ríkisstjórnin hefur tekið, eða þingið réttara sagt, innan ársins. Við skulum treysta á að stofnunum takist að halda sig innan fjárlaga í lok árs en það er ákveðinn áhættuþáttur hvað varðar endanleg fjáraukalög á þessu ári.