138. löggjafarþing — 6. fundur,  13. okt. 2009.

fjáraukalög 2009.

10. mál
[15:22]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Mig langar að beina fyrirspurn eða andsvari mínu til hv. formanns fjárlaganefndar. Það lýtur að framkvæmdum á Alþingisreitnum.

Í fjárlagafrumvarpinu 2010 stendur að vegna kostnaðaraðhalds sé ekki gert ráð fyrir fjárveitingu á þessum lið en talað er um að í fjárlögum ársins 2009 eigi 252 millj. að standa undir framkvæmdum, endurgerð, flutningi Skúlahúss og Skjaldbreiðar, að ljúka fornleifauppgreftri o.s.frv. Hins vegar stendur á bls. 109 í frumvarpi til fjáraukalaga að þar eigi að draga í burtu þessar 200 millj. Ég spyr því hv. formann fjárlaganefndar: Á þá að hverfa frá þeim framkvæmdum sem fyrirhugaðar hafa verið með færslu Vonarstrætis 12 og breytingum hér á Alþingisreitnum með því að falla frá þeim 200 millj. sem nú eru í fjáraukalögum?

Síðan langar mig einnig að spyrja hv. formann fjárlaganefndar um lið nr. 391 sem er jöfnun á örorkubyrði almennra lífeyrissjóða. Í fjárlagafrumvarpinu 2010 er gert ráð fyrir 329 millj. kr. hækkun á þessum lið en í fjáraukalögunum á bls. 144 er lögð til 66,3 millj. kr. lækkun á árinu 2009. Því spyr ég: Telur hv. formaður að þessi hækkun í fjárlagafrumvarpinu 2010 taki mið af þessum fjáraukalögum sem lækka um 66 millj. eða er hún hækkun frá fjárlögum ársins 2009?