138. löggjafarþing — 6. fundur,  13. okt. 2009.

fjáraukalög 2009.

10. mál
[15:25]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. formanni fjárlaganefndar en langar að víkja aftur að framkvæmdum hér á Alþingisreitnum. Fyrirhugað var að færa Vonarstræti 12 og ganga frá í það minnsta framhliðinni á Alþingisreitnum og fornminjum þannig að sómi væri að fyrir þingið. Nú hefur húsnæði verið tekið á leigu fyrir þingflokk Vinstri grænna úti í Aðalstræti vegna þess að fyrirhugað var að flytja Vonarstræti 12. Er það réttur skilningur minn á orðum hv. formanns fjárlaganefndar að frá þessu verði vikið, þannig að Vonarstræti 12 standi áfram á þeim stað sem það er nú um ókomna tíð, þrátt fyrir að búið sé að gera samning sem hljóðar að ég held upp á 50 millj. á ársgrunni úti í Aðalstræti fyrir þingflokk Vinstri grænna sem áður hafði Vonarstræti 12? Ég tel að hér sé einhver misskilningur, í það minnsta á milli mín og formanns fjárlaganefndar, vegna þess að það í forsætisnefnd er sá skilningur að þetta hafi átt að gera.