138. löggjafarþing — 6. fundur,  13. okt. 2009.

fjáraukalög 2009.

10. mál
[15:27]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er rétt sem hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir segir, það var búið að gera leigusamning varðandi Aðalstræti. Í umræðunni nú um mitt sumar var rætt hvort hægt væri að rifta þessum samningi og hverfa frá áformum um að flytja þingflokk Vinstri grænna yfir í Morgunblaðshúsið eða VG-húsið eins og þeir kalla það í dag. Það tókst ekki og síðan var ákveðið að þingflokkurinn flytti á milli.

Þá hafði verið rætt um það, án þess að ég ætli að túlka þetta nema þá sem fyrrverandi forseti um tveggja mánaða skeið, að færa Vonarstræti 12 yfir á sinn stað, ganga sómasamlega frá umhverfinu en bíða með innréttingar eða sjá a.m.k. hvað væri hægt að potast með það. Það hefur komið fram athugasemd við að í þessum fjáraukalögum hafi verið gengið of langt varðandi niðurskurðinn. Þarna voru, ef ég man rétt, skornar niður 200 millj. en ekki nema 50 millj. haldið eftir og það dugi ekki til að gera þessa hluti. Þetta er hluti af því sem verður að skoða en meginatriðið var að menn töldu að fyrir þessa upphæð væri hægt að ganga frá þessum málum og koma þeim í sómasamlega biðstöðu, ef það má orða það þannig. Reynist það rangt verður auðvitað að skoða það mál í fjárlaganefnd.