138. löggjafarþing — 6. fundur,  13. okt. 2009.

fjáraukalög 2009.

10. mál
[15:33]
Horfa

Ólöf Nordal (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Sá liður sem hv. þm. Guðbjartur Hannesson vísaði til nú síðast hefur verið um 5 milljarðar kr., er núna röskir 5 milljarðar kr. í frumvarpi til fjárlaga og hefur haft dálítið sérstaka þýðingu þarna. Mér fannst hv. þingmaður gefa í skyn í ræðu sinni að um frekari pott af þessu tagi væri að ræða. Ég skil orð hans núna sem svo að það sé ekki hugsunin og ég verð að segja að ég er ánægð að heyra það vegna þess að ég held að það sé ekki til bóta. Ég held að það sé miklu mikilvægara fyrir okkur að reyna að hafa stífar reglur um framkvæmd fjárlaganna sjálfra. Ég held að umræðan um fjáraukalögin núna og raunar oft áður sé dálítið vandmeðfarin gagnvart þinginu þegar þetta kemur svona beint í fangið á okkur frá fjármálaráðuneytinu, þingið tekur við þessu og mun síðan vinna úr því nánar í fjárlaganefndinni.

Ég skal ekki segja hvernig best er að breyta hlutunum en vegna orða hv. þm. Guðbjarts Hannessonar um að hann hafi hugmyndir sem hann vilji ræða nánar í nefndinni þá er það auðvitað fagnaðarefni. Nefndin hefur verið mjög reiðubúin til að ræða þessa hluti að undanförnu. Ég held að þetta snúist ekki endilega um hvort við höfum aðgang að ákveðnum grunnum eða ekki, ég er ekki alveg sammála kollega mínum um það. Þetta snýst fyrst og fremst um að það sé farið að því sem þingið ákveður. Það er nokkuð sem við höfum verið að berjast við í nokkuð mörg ár, að farið sé eftir þeim fjárheimildum sem þingið úthlutar. Þingið getur síðan komist inn í málin ef illa gengur. Ég held að þarna sé verkefni fyrir hv. þm. Guðbjart Hannesson, formann fjárlaganefndar, að breyta vinnubrögðum.

Mig langar jafnframt í lokin að spyrja hann að því hvort honum finnist við þær aðstæður sem núna eru koma til greina að skoða fjárlagagerðina algjörlega upp á nýtt og líta til þess hvaða verkefnum er rétt að ríkið sinni, og sinni þá vel, og hvaða verkefni eru þess eðlis að þau þurfi ekki endilega að vera á könnu ríkisins. Hvort þær aðstæður sem nú hafa skapast í þjóðfélaginu séu ekki einmitt þannig að við ættum að horfa á hlutina með öðrum augum en við höfum gert fram til þessa.