138. löggjafarþing — 6. fundur,  13. okt. 2009.

fjáraukalög 2009.

10. mál
[15:35]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Fyrst þetta síðasta varðandi að við eigum að hugsa upp á nýtt hvað sé mögulegt og best í fjárlagagerðinni. Ég sé þetta þannig fyrir mér að strax eftir að búið er að afgreiða fjárlög og fjáraukalög núna í desembermánuði, í janúar eða byrjun febrúar, fari fjárlaganefnd í að vinna forsendur fyrir fjárlagafrumvarpið 2011. Þar á einmitt að ræða hvert sé hlutverk ríkisins á hverjum tíma. Við eigum að þora að taka svona prinsippumræðu um hver verkefnin séu, hvernig við fylgjum þeim eftir og hvernig við náum þeim markmiðum sem annaðhvort ríkisstjórn eða þingið í heild hefur varðandi fjárlög og framkvæmd fjárlaga. Þetta er auðvitað ákveðin óskhyggja en í raun einu vinnubrögðin sem geta virkað. Við verðum að ná þessu yfir í þann farveg að það sé þingið sem gefur forsendurnar, síðan sjái framkvæmdarvaldið um framkvæmd hlutanna.

Þetta tengist líka þessu með eftirlitshlutverkið. Ég held að við séum sammála, ég og hv. þm. Ólöf Nordal, um að við eigum einmitt ekki bara að bera ábyrgð á stofnunum heldur bera viðkomandi stofnanir ábyrgð á því að fara að fjárlögum og síðan er það ráðuneyti viðkomandi málaflokks sem ber ábyrgð á að fylgja því eftir. Í öllum ráðuneytum eru fjármálaskrifstofur. Sjái þau sér það ekki fært eða ef þingið tekur ákvarðanir um breytingar í viðkomandi málaflokkum og það rúmast ekki innan fjárheimilda þarf málið að koma til þingsins með ósk um breytingar í gegnum fjáraukalög eða með öðrum hætti. Ég held að við séum alveg sammála um að þetta hlutverk er fyrst og fremst í höndum þingsins, við setjum rammana og ákveðum tölurnar. Síðan er það framkvæmdarvaldið, þ.e. stofnanirnar, ráðuneytin og ýmsar stofnanir í samfélaginu sem heyra undir fjárlög — það er þeirra að spila úr þeim fjármunum innan þeirra ramma sem settir eru. Hafi verið vitlaust gefið eiga menn að koma með það til þingsins. Það er ekki nóg að það komi fram sem gerður hlutur í lok árs heldur þarf það að koma jafnóðum. Þessar breytingar eru fyrirsjáanlegar (Forseti hringir.) og hljóta eðlilega afgreiðslu hjá Alþingi.