138. löggjafarþing — 6. fundur,  13. okt. 2009.

fjáraukalög 2009.

10. mál
[15:53]
Horfa

Anna Margrét Guðjónsdóttir (Sf):

Frú forseti. Mig langar að byrja á því að óska hæstv. fjármálaráðherra til hamingju með þessa samninga sem við virðumst vera að lenda í sambandi við uppgjör á íslensku bönkunum.

Tilefni þess að ég stíg hér í stól í fyrsta sinn er að fá hjá honum skýringar varðandi frumvarp til fjáraukalaga sem hann fylgdi úr hlaði í dag og það varðar lið nr. 985 undir heitinu „Fyrrum varnarsvæði við Keflavíkurflugvöll“. Þar er lagt til að dregið verði úr framlagi til fyrrum varnarsvæða um 86 millj. kr. á þessu ári en í fjárlögum 2009 er gert ráð fyrir að 1 milljarði og 6 millj. verði varið til þess að koma eignum á svæðinu í söluhæft ástand, annast rekstur, viðhald og framkvæmdir á fasteignum og hreinsun svæðisins. Hér segir, með leyfi forseta:

„Gert er ráð fyrir því að hægt verði á áformum um hreinsun svæðisins í samræmi við áform um samdrátt í ríkisútgjöldum.“

Nú höfum við öll fullan skilning á nauðsyn niðurskurðar en mig langar að vitna til fundar sem haldinn var í Reykjanesbæ í gær um atvinnuástandið þar. Fram kom að 1.600 manns eru á atvinnuleysisskrá, bæði karlar og konur, og ýmis áform eru í gangi um sköpun atvinnu á svæðinu. Það breytir ekki því að þessum störfum sem hér er lagt til að verði skorin niður sinna býsna margir iðnaðarmenn fyrir utan að við gerum ráð fyrir að þessu fylgi velta í verslun á Reykjanesi. Því held ég að þetta sé óskynsamlegt núna á því svæði þar sem mesta atvinnuleysið er í augnablikinu og sitthvað sem bendir til þess að tafir verði á stórframkvæmdum, í bráð alla vega. Ég held því að það skipti verulegu máli að halda þessum lið inni óskertum eða minna skertum en hér er gert ráð fyrir.

Mig langar reyndar varðandi sama lið að spyrja hæstv. fjármálaráðherra hvað líði innheimtu á sölutekjum af eignum á varnarsvæðinu, hvernig heimtur hafi verið frá því að samningurinn var undirritaður um sölu eignanna og hvernig gengið hafi að innheimta það söluverðmæti sem samið var um á sínum tíma.