138. löggjafarþing — 6. fundur,  13. okt. 2009.

fjáraukalög 2009.

10. mál
[16:10]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég kem hér í andsvar við hæstv. fjármálaráðherra. Ég fagna því í upphafi að ég heyri bjartsýnistón í hæstv. ráðherra. Mér finnst það gott. Mér finnst gott að ráðherrann tali af ákveðinni bjartsýni. Það er allt í lagi að geta þess sem vel hefur verið gert og tala kjark í þjóðina. Það vita allir að á það hefur skort.

Hæstv. ráðherra sagði að við værum á réttri leið, það hefði gengið vel að koma samfélaginu í lag eftir áfallið sem við urðum fyrir fyrir réttu ári. Síðan vakti athygli mína að ráðherrann spáði því að fljótlega yrðu allar forsendur fyrir því að gengið færi að styrkjast og vextir að lækka. Það er nokkuð sem við bíðum öll eftir.

Það var þó eitt sem hæstv. ráðherra sagði, það þyrfti einungis að klára eitt lítið mál á undan, Icesave, það þyrfti að klára Icesave og endurskoðun AGS-áætlunarinnar yrði að fara fram. Þá spyr ég hæstv. ráðherra í ljósi þess að Icesave-málið hefur ekki gengið neitt sérstaklega vel í gegnum stjórnarflokkana, ekki síst flokk hæstv. ráðherra: Er hann að boða hér með bjartsýni sinni það að við fáum glæsilega niðurstöðu í það mál? Þá þætti mér mjög forvitnilegt að vita hver sú lausn væri og hvort búið væri að tryggja meiri hluta fyrir því innan þingflokks Vinstri grænna.

Síðan horfði hæstv. ráðherra djúpt í augun á mér og sagði: Hér eru einhverjir sem telja að stórverkefni séu lausnin í atvinnumálum þjóðarinnar. Ég get alveg tekið undir það að stórverkefni eru mikilvæg, en ég vil benda hæstv. ráðherra á að annað þarf ekki að útiloka hitt, (Forseti hringir.) að stórverkefni í atvinnumálum eru góð, en þau þurfa ekkert að útiloka sprotafyrirtækin. Reyndar fer það (Forseti hringir.) oft og tíðum mjög vel saman.