138. löggjafarþing — 6. fundur,  13. okt. 2009.

endurskoðun á undanþágum frá I. kafla I. viðauka við EES-samninginn.

17. mál
[16:41]
Horfa

Ólöf Nordal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég verð að segja alveg eins og er að hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hlýtur að vera nokkur vandi á höndum að bera þetta mál upp miðað við þau orð sem fallið hafa í þingsölum vegna sama máls á fyrri stigum. Ekki hefur hæstv. ráðherra skort gagnrýni á málið eins og það var í pottinn búið þegar þessar Evrópureglur voru boðaðar hér og því votta ég hæstv. ráðherra samúð mína í þessu máli.

Ég get samt ekki orða bundist og spurt hæstv. ráðherra að því hvort hann telji virkilega að þetta frumvarp muni hljóta náð í augum Brussel-valdsins sem hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hamast við að senda spurningalista núna á hverjum einasta degi. Hæstv. ríkisstjórn sem hann situr í er einbeitt í að koma sér í Evrópusambandið. Hefur hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra spurt kommissarana í Brussel að því hvort þetta frumvarp, eins og það lítur út núna með innflutningsbanni á hráu kjöti og eggjum og öðrum atriðum sem eru algjörlega á skjön við þessar Evrópureglur — telur hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að þetta muni ganga upp svona? Hvað ætlar hæstv. ráðherra að gera ef ESA hafnar þessari leið hæstv. ráðherra og biður hann að fara aftur heim til Íslands og gera þetta rétt? Hvernig ætlar hæstv. ráðherra að bregðast við því?