138. löggjafarþing — 6. fundur,  13. okt. 2009.

endurskoðun á undanþágum frá I. kafla I. viðauka við EES-samninginn.

17. mál
[16:43]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka fyrir ábendingar hv. þm. Ólafar Nordal og vil vekja athygli hennar á því að við erum stödd hér á löggjafarsamkomu Íslendinga en ekki í Brussel. Þetta frumvarp er flutt fyrir löggjafarsamkundu Íslendinga á löggjafarþingi Íslendinga, fær þar vonandi afgreiðslu og verður vonandi innan tíðar staðfest sem íslensk lög.

Hitt er svo að þetta ákvæði stangast ekki á við þau ákvæði sem standa í EES-samningnum sem við erum aðilar að. Ég vil vekja athygli hv. þingmanns á því. Í 13. gr. EES-samningsins stendur, með leyfi forseta, að það má leggja „á innflutning, útflutning eða umflutning vara bönn eða höft sem réttlætast af […] vernd lífs og heilsu manna eða dýra eða gróðurvernd,“ þrátt fyrir þær takmarkanir sem kveðið er á um.

Ég vona að hv. þingmaður verði mér dyggur stuðningsmaður í þeim efnum. Ég tel að íslenskar búfjártegundir, íslenska sauðkindin, íslenska kýrin og íslenska geitin, sem hafa um aldir verið hér og lifað í einangrun og eru mjög viðkvæmar fyrir sjúkdómum, séu mjög mikilvægar, ekki bara fyrir okkur. Þessar búfjártegundir eru líka undirstaða okkar atvinnuvegar í matvælaframleiðslu og okkur ber skylda til að standa vörð um þær. Það er einmitt kveðið á um heimildir (Forseti hringir.) til þess og reyndar skyldur líka í EES-samningnum sem hérna er stuðst við.