138. löggjafarþing — 6. fundur,  13. okt. 2009.

endurskoðun á undanþágum frá I. kafla I. viðauka við EES-samninginn.

17. mál
[16:47]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég hef nokkrar áhyggjur af hv. þm. Ólöfu Nordal hvað hún leggur mikið upp úr Brussel-valdinu. Hún getur varla sagt heila setningu án þess að tilgreina Brussel-valdið.

Það er alveg rétt að fyrrverandi ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar lagði fram þetta frumvarp. Þar var gert ráð fyrir því að heimildin til þess að banna innflutning á hráu kjöti væri felld brott. Nú er samkomulag í ríkisstjórninni um að frumvarpið verði lagt fram með þessum hætti. Ef hv. þingmaður (ÓN: Þetta gengur ekki upp.) efast um orð og stöðu hæstv. utanríkisráðherra þá skal tekið fram að þetta er flutt í góðu samkomulagi við hæstv. utanríkisráðherra. Ég vona því að hv. þm. Ólöf Nordal segi þá „Brussel-valdið“ a.m.k. bara í annarri hverri setningu.

Við erum hér á löggjafarsamkomu Íslendinga og setjum íslensk lög. Að sjálfsögðu er þess getið í spurningalistanum, sem ég ætla líka að láta svara á íslensku svo hv. þingmenn og þar á meðal hv. þm. Ólöf Nordal geti lesið bæði á ensku og íslensku, hvernig því er svarað. Þar er einmitt tekið fram og rökstutt að heimild til þess að innflutningsbann á hráu kjöti og kjötvörum verði ekki fellt niður, standi.

Ég ítreka því að það eru íslensk lög sem gilda og ég treysti á að Alþingi með hv. þm. Ólöfu Nordal í broddi fylkingar samþykki lög sem kveða á um þessar heimildir sem allra fyrst. Þá standa íslensk lög þangað til önnur leysa þau af hólmi og það er þá Alþingis að taka ákvörðun þess efnis. Það eru íslensk lög sem standa.