138. löggjafarþing — 6. fundur,  13. okt. 2009.

endurskoðun á undanþágum frá I. kafla I. viðauka við EES-samninginn.

17. mál
[17:53]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta svar. Ég verð þó að segja að það að kalla þessa sérfræðinga fyrir nefndina er kannski gert með eigin hagsmuni að leiðarljósi. Mér þykir það ekki nóg vegna þess að ég á ekki sæti í þessari nefnd og eðlilega á einungis hluti þingmanna sæti í hv. nefnd. Þetta er mál sem við höfum mörg hver áhuga á jafnvel þótt við séum ekki í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd og því vildi ég gjarnan óska eftir því við formanninn aftur að fá skriflega umsögn þannig að við getum milliliðalaust lesið okkur til um skoðanir þeirra. Síðan er hv. formanni að sjálfsögðu í sjálfsvald sett hvort hann kalli þá til sín til enn frekari skrafs og ráðagerða.

Varðandi að við höfum leikreglur ef ágreiningur er um þessi mál — það er vissulega rétt en ég tel að við þurfum að ganga kirfilega úr skugga um það áður en við samþykkjum löggjöf sem er þess eðlis að vafi gæti leikið á hvort hún standist. Ég óska eftir því við stjórnarflokkana að gengið verði tryggilega úr skugga um það, einmitt með því að leita umsagna sem víðast frá þeim sérfræðingum sem þarna geta komið að máli.

Ég segi það aftur að ég hef miklar mætur á hv. þingmanni og trú á hans lögfræðikunnáttu og er ekki að kasta rýrð á hann þegar ég óska eftir að fá enn frekari sérfræðiálit.