138. löggjafarþing — 6. fundur,  13. okt. 2009.

endurskoðun á undanþágum frá I. kafla I. viðauka við EES-samninginn.

17. mál
[18:06]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar að spyrja hv. þingmann þar sem hún er mjög fylgjandi aðild Íslands að Evrópusambandinu eins og fram kom í hennar ágætu ræðu — og ég óska henni til hamingju þótt þetta væri reyndar ekki jómfrúrræðan sem hún flutti hér fyrr í dag — hvort hún deili áhyggjum mínum af því að þetta frumvarp gangi ekki nógu langt til þess að uppfylla matvælatilskipunina og þá í fyrsta lagi hvort hún telji þetta geta haft neikvæð áhrif á samninginn um Evrópska efnahagssvæðið. Í öðru lagi hvernig hún meti það hvort þetta geti haft áhrif á aðildarviðræðurnar. Ég tel að ef við uppfyllum ekki fyllilega okkar skyldur og skuldbindingar, eins og ég tel að við gerum ekki með þessu frumvarpi, geti það haft áhrif á hvernig Evrópusambandið tekur okkur í viðræðunum, sem mér er reyndar meira sama um, en hvaða áhrif þetta gæti haft á samninginn?