138. löggjafarþing — 6. fundur,  13. okt. 2009.

endurskoðun á undanþágum frá I. kafla I. viðauka við EES-samninginn.

17. mál
[18:13]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka þær ágætu umræður sem hafa verið um þetta frumvarp til laga um breytingar á lögum um endurskoðun á undanþágum við viðauka við EES-samninginn, um innleiðingu á reglugerðum um matvæli, eða svokallað matvælafrumvarp. Þessi umræða er ekki ókunnugleg. Ætli þetta sé ekki í fjórða sinn sem málið kemur inn til Alþingis, ef ég man rétt, og ýmis atriði sem komið hafa fram í umræðunum eru jú hluti af þeirri umræðu sem áður hefur farið fram.

Varðandi einstök atriði eins og þær ábendingar sem komu fram varðandi bæði kaflann um dýralækna og flutning á verkefnum í heilbrigðiseftirlitinu frá sveitarfélögum til hins opinbera, eða til Matvælastofnunar, þá vísa ég til vinnunnar sem þegar er í gangi í hv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd. Þetta frumvarp var flutt í vor og fór þá inn til nefndar en atvik og áherslur í þinginu höguðu því svo að málið var ekki afgreitt úr nefnd til 2. umr. Ég lít svo á að við séum að endurflytja frumvarpið þannig að það fari í þá áframhaldandi vinnu sem þar var í gangi undir góðri verkstjórn hv. þm. Atla Gíslasonar. Þau atriði sem hér hafa verið reifuð og geta verið álitaefni verða þá skoðuð vandlega og ég treysti nefndinni mjög vel til þess.

Þingmenn hafa eðlilega tengt við þetta mál Evrópusambandsaðildarumræðum almennt. Í mínum huga er hér verið að flytja sjálfstætt mál sem lýtur að mjög ákveðnum þáttum. Þetta er frumvarp um fjölmörg atriði á sviði matvælalöggjafar sem lýtur að landbúnaði, matvælavinnslu í landbúnaði og einnig á sviði sjávarútvegs og matvælavinnslu í sjávarútvegi, svo dæmi séu nefnd. Þegar er farið að vinna eftir meginhluta þess sem stendur í þessu frumvarpi og um það hefur ekki verið neinn ágreiningur í ræðum hv. þingmanna.

Þetta frumvarp tekur því til miklu fleiri atriða en þess sem hefur fyrst og fremst orðið að umtalsefni, sem er að ekki verði felld brott heimild til að banna innflutning á hráu kjöti og kjötvörum og tilheyrandi vörum sem hér hafa verið tilgreindar.

Ég ítreka og tek undir orð margra hv. þingmanna, ekki síst hv. þm. Atla Gíslasonar sem einnig er virtur lögmaður og getur þannig sett sín lóð á vogarskálina í þeirri umræðu, um að hér er verið að setja íslensk lög. Alþingi setur lög um ákveðið efni. Hvort einhverjir telja seinna meir að á þeim sé brotið eða lögin uppfylli ekki þær óskir sem þeir hafa er réttur þeirra eins og almennt er varðandi lagasetningu að viðkomandi aðilar geta að sjálfsögðu höfðað mál. Þá gengur það bara sinn veg en lögin standa þar til þeim er breytt.

Þetta mál hefur komið áður fyrir þingið eins og hér hefur verið greint frá. Þetta var undanþáguákvæði í upprunalega EES-samningnum, að mig minnir frá 1991/1992, og skyldi svo endurskoðast að 10 árum liðnum en nokkur dráttur varð á því. Þegar sú endurskoðun fór síðan í gang hjá þáverandi ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks var ákveðið að halda þessum ákvæðum ekki til streitu en áfram var inni bann á innflutningi á lifandi dýrum. Það er ein ástæðan fyrir því að fallist var á þann fyrirvara. Þá var ekki fallist á að lögin um dýravernd yrðu innleidd vegna þess að hér gilti ekki frjáls innflutningur á lifandi dýrum. Ýmis rök í þessu máli lúta því að einstökum þáttum þess.

Ég minnist þess ekki á mínum þingferli að fram hafi komið fleiri athugasemdir og ályktanir frá samtökum, félagasamtökum, búnaðarfélögum, kvenfélögum og matvælavinnslum vítt og breitt um landið, að það hafi komið fram jafnvíðtækar athugasemdir og við að það ætti að heimila innflutning á hráu kjöti. Ég tel því og merki það á orðum hv. þingmanna að þeir almennt styðji að við stöndum vörð um matvæla- og fæðuöryggi þjóðarinnar eins og gert er ráð fyrir í þessu frumvarpi. Ég vona því og treysti að þetta fái vandaða og góða meðferð af hálfu hv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar.