138. löggjafarþing — 6. fundur,  13. okt. 2009.

endurskoðun á undanþágum frá I. kafla I. viðauka við EES-samninginn.

17. mál
[18:28]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil ekki tengja þetta mál svo sterkt Evrópusambandsumsóknaraðild eins og hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins vilja gera. Þótt sé búið að samþykkja að fara í þetta aðildarferli og senda inn umsókn vitum við ekki hversu langan tíma það tekur og það á eftir að fara yfir óendanlega marga efnisþætti. Íslensk löggjöf stoppar því ekki hér þó að menn hafi sótt um aðild að Evrópusambandinu. Það er bara fráleitt.

Síðan, eins og hv. þingmaður kom inn á, ef málin fara áfram kemur þetta mál sjálfsagt upp eins og mörg önnur. Hér er bara verið að leggja áherslu á hagsmuni Íslendinga og íslenskrar þjóðar, að hér sé staðinn vörður um matvælaöryggi og fæðuöryggi. Þetta frumvarp og atriði þessa frumvarps sem hv. þingmaður gerði að umtalsefni eru einmitt liður í því. Ég hef trú á því að allar þjóðir séu sömu skoðunar að það eigi að verja matvæla- og fæðuöryggi hverrar þjóðar og ég treysti því að þau sjónarmið gildi einnig um Íslendinga.