138. löggjafarþing — 6. fundur,  13. okt. 2009.

almenn hegningarlög.

16. mál
[18:42]
Horfa

dómsmála- og mannréttindaráðherra (Ragna Árnadóttir) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hið fyrra frumvarp var að mati refsiréttarnefndar og ráðuneytisins fullnægjandi til að uppfylla alþjóðlegar skuldbindingar. Hins vegar bárust okkur ákveðin sjónarmið sem við töldum sjálfsagt að yrðu athuguð nánar. Þetta frumvarp er hins vegar óvenjulegt að því leyti að þarna er slegið saman fullgildingum margra alþjóðlegra samninga og við mátum það svo að það eitt að frumvarpið tæki á svona mörgum og margslungnum atriðum gæti valdið töfum á afgreiðslu þess. Við ákváðum því að gera þetta svona og fela refsiréttarnefnd að athuga betur hvort umrædd ákvæði um hryðjuverk væru þannig orðuð að í raun þyrfti að breyta þeim út frá refsipólitískum sjónarmiðum. Það er ástæðan fyrir því að frumvarpið er í þessari mynd.