138. löggjafarþing — 6. fundur,  13. okt. 2009.

almenn hegningarlög.

16. mál
[18:53]
Horfa

Atli Gíslason (Vg):

Frú forseti. Ég hef svo sem litlu við ágæta framsögu hæstv. dóms- og mannréttindaráðherra að bæta. Komið hefur fram að málið er nú flutt í fjórða sinn og það náði ekki fram að ganga vegna ýmissa aðstæðna. Ég þakka fyrir það sem kom fram hjá hv. þm. Birgi Ármannssyni að það sé Vinstri hreyfingunni – grænu framboði að kenna. Ég flutti ýmsar ræður um þetta mál á sínum tíma og lagði fram breytingartillögur. Ég held að það sé fullmikið sagt að málið hafi strandað á andstöðu Vinstri grænna þótt hún hafi haft eitthvað að segja, kannski talsvert. Málið var tilbúið, ef ég man rétt, við 2. eða 3. umr. vorið 2008 og ég hef ekki alveg áttað mig á því enn þá af hverju það var ekki sett fram. Ég hygg þó að þar hafi ráðið ágreiningur milli þáverandi ríkisstjórnarflokka.

Ég vísa að öðru leyti í ræður mínar á fyrri þingum. Gerðar hafa verið breytingar á frumvarpinu sem voru mér mestur þyrnir í augum. Ég taldi þau ákvæði sem hér hafa orðið að umtalsefni ganga of langt og vera of óljós. Það var mín skoðun. Ég lagðist ekki gegn frumvarpinu í heild, það var um margt vel unnið og er að mínu mati í ágætisformi í dag.

Það mikilvægasta í þessu máli er að hér er verið að lögleiða Palermó-samninginn frá 15. nóvember 2008 og bókun við þann samning frá sama tíma um að koma í veg fyrir, berjast gegn og refsa fyrir verslun með fólk, einkum konur og börn. Í öðru lagi er verið að gera nauðsynlegar ráðstafanir til að hægt sé að fullgilda Evrópusamninginn um aðgerðir gegn mansali frá 3. maí 2003. Ég fagna því sérstaklega að í ráðuneytinu er í gangi vinna til að bæta úr útlendingalögum þannig að þolendur mansals eigi greiðari rétt til dvalar hér á landi en verið hefur. Það er mikið fagnaðarefni.

Ég vil sérstaklega vekja athygli á greinargóðum athugasemdum í greinargerðinni á bls. 7 um Evrópuráðssamninginn um aðgerðir gegn mansali og íslensk refsilög þar að lútandi. Mansal og vændi eru í dag grafalvarleg vandamál sem þarf að taka á, ekki bara hér á Íslandi heldur á alþjóðlega vísu því þetta er brotastarfsemi af þeirri tegund sem fer yfir landamæri. Það sama má í raun segja um klámvæðinguna sem hér ríður húsum. Ég vek athygli á því að þessir þættir, mansal, vændi og klámiðnaður, ganga gegn mannréttindum og kynfrelsi sem er veigamikill hluti af friðhelgi einkalífs okkar sem verndað er af stjórnarskránni. Ég veit hins vegar fullvel að allsherjarnefnd mun fara faglega í þetta mál og nýta sér þá vinnu sem þegar hefur verið unnin við fyrri frumvörp.