138. löggjafarþing — 6. fundur,  13. okt. 2009.

almenn hegningarlög.

16. mál
[18:56]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að fara í efnislega umræðu við hv. þm. Atla Gíslason um hryðjuverkaákvæðin núna. Ég hugsa miðað við orð hæstv. dómsmálaráðherra að við fáum tækifæri til að gera það síðar.

Það er rétt sem hv. þm. Atli Gíslason sagði að andstaða Vinstri grænna var auðvitað ekki eina ástæðan fyrir því að málið náði ekki fram að ganga. Það er allt í lagi að segja þá sögu eins og er að vegna andstöðu Vinstri grænna fékk alla vega hluti þingflokks Samfylkingarinnar mikinn skjálfta í hnén og taldi sér ekki fært að standa að þessum ákvæðum miðað við að Vinstri grænir höfðu uppi stór orð um að mæta þessum ákvæðum með mjög harðri umræðu um málið. Þá gerðist það eins og oft hefur gerst við ýmsar aðstæður að þegar á móti blæs fer Samfylkingin á taugum.