138. löggjafarþing — 6. fundur,  13. okt. 2009.

almenn hegningarlög.

16. mál
[19:04]
Horfa

Atli Gíslason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég hef verið þeirrar skoðunar að mál eigi að fá faglega umfjöllun í nefndum. Þó að ég hafi ekki átt langa þingsetu á þingi var ég þó stjórnarandstöðuþingmaður frá vori 2007 til stjórnarslitanna sem urðu núna í janúar og er ýmsu vanur. Ég óska þess að hv. þm. Unnur Brá Konráðsdóttir hefði þá verið í stjórn og svarað fyrir þau vinnubrögð sem þá voru.

Nauðsyn brýtur lög og lög kunna að víkja þingmönnum. Það var eingöngu á þeim forsendum að Alþingi bar skylda til að setja þessa náttúruverndaráætlun fyrir árin 2009–2012 að þessi leið var farin. Engar breytingar höfðu orðið á tillögunni frá vorþinginu og ég taldi það réttlætanlegt. Vinnubrögðin eiga að vera í þeim anda sem hv. þingmaður lýsir þótt auðvitað eigi að notfæra sér forvinnu þingsins en ekki að byrja allt upp á nýtt.