138. löggjafarþing — 6. fundur,  13. okt. 2009.

almenn hegningarlög.

16. mál
[19:05]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það urðu einmitt breytingar á náttúruverndaráætlun á síðasta vorþingi. Þær breytingar fylgdu hins vegar ekki málinu inn á sumarþingið heldur duttu einfaldlega út. Umhverfisnefndin sem sat á sumarþinginu stóð í þeirri meiningu, eða meiri hluti hennar, að engar breytingar hefðu verið gerðar en það er ekki rétt. Umhverfisnefndin fór ekki betur yfir málið og þessa vönduðu vinnu sem unnin var í umhverfisnefnd á vorþinginu en svo að hún tók ekki eftir því að nokkur atriði höfðu fallið brott, m.a. varðandi hvannastóð í Vík í Mýrdal. Fjögur atriði duttu út ef ég man rétt. Ég sat í umhverfisnefnd sem varamaður á þessum fundi og á þessum 10 mínútum sem fundurinn tók náði ég að sjá það. Vinnubrögðin voru ekki vandaðri en svo. Við megum því ekki þrátt fyrir að tímarnir séu erfiðir, það liggi á og einhver frestur sé að líða henda frá okkur öllum prinsippum. Ég skil alveg og veit, hv. þm. Atli Gíslason, að vinnubrögð fortíðarinnar hafa ekki í öllum tilvikum verið til fyrirmyndar. Það þýðir samt ekki að ég ætli að kvitta upp á hvaða vitleysu sem er.

Ég tel að við sem sitjum á þingi eigum að líta út fyrir pólitískar víglínur og einsetja okkur að viðhafa vönduð vinnubrögð, líka hvað varðar náttúruverndaráætlun. Þótt brýnt sé að standa tímafresti þar þá verður engu að síður a.m.k. að lesa yfir hvaða niðurstöðum fyrri nefndir hafa komist að þegar verið er að tala um vönduð vinnubrögð í fyrri nefndum. Það er lágmarksviðmið.