138. löggjafarþing — 7. fundur,  14. okt. 2009.

störf þingsins.

[13:34]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Það eru erfiðir tímar í samfélagi okkar og ein versta birtingarmynd þess er það ástand sem þjóðin glímir við í dag, aukið atvinnuleysi. Það er vonleysi gagnvart aðgerðum ríkisstjórnarinnar, vonleysi gagnvart því að ná hjólum atvinnulífsins í gang og skortur á trausti erlendra aðila til að fjárfesta á Íslandi. Það er skortur á trausti sem þarf til að auka atvinnu og verðmætasköpun sem er nauðsynleg til frekari öflunar erlends gjaldeyris. Um þetta atriði eru allir þeir sem fjallað hafa um stöðu Íslands og tækifæri sammála. Það eru allir sammála hvort sem eru erlendir sérfræðingar eða innlendir, að það er nýtingin á náttúruauðlindum okkar sem verður til að koma hjólum atvinnulífsins í gang, auka verðmætasköpun og vinna þá miklu vinnu sem þarf til að afla hér frekari gjaldeyris.

Umdeild ákvörðun umhverfisráðherra sem tekin var fyrir nokkrum dögum varðandi suðvesturlínu er að mati Samtaka atvinnulífsins og Samtaka hinna vinnandi stétta í landinu skýlaust brot á stöðugleikasáttmálanum auk þess sem litið er á nýbirta skattstefnu fjármálaráðherra sem árás á atvinnulíf og viðreisn en er svo í engu samræmi við þau loforð sem gefin voru í stöðugleikasáttmála. Ég vil því spyrja hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson hvort þingmaðurinn styðji ákvörðun umhverfisráðherra, hvort þingflokkur sá sem hann er í forsvari fyrir standi á bak við þessa ákvörðun umhverfisráðherra og hvort stuðningur sé í þingflokknum og hjá hv. þingmanni við þeirri geggjuðu leið sem kynnt hefur verið í skattlagningu á atvinnulífið.