138. löggjafarþing — 7. fundur,  14. okt. 2009.

störf þingsins.

[13:40]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Formaður fjárlaganefndar ætlar ekki að véla um afleiðingarnar af 23. október heldur að fjalla um frumvarpið um ríkisábyrgð á Icesave-samningum. Ég get þó upplýst hv. fjárlaganefndarmann Höskuld Þórhallsson um það sem gerðist í nefndinni, að við fengum ítrekaðar viðvaranir um hvað gæti gerst 23. október, hvað gæti gerst ef við borguðum ekki eða stæðum ekki í skilum varðandi Icesave-samninginn. Það hefur komið margoft fram í nefndinni, bæði hjá Seðlabankanum á þeim tíma og hjá aðilum atvinnulífsins, að lánafyrirgreiðslur og annað mundu ganga hægar fyrir sig og flest af því hefur gengið eftir. Við mundum eiga erfiðara með að komast út úr vandanum og við ættum mjög erfitt með að uppfylla þau skilyrði sem m.a. eru nefnd í frægri hagfræðiskýrslu Háskóla Íslands, að forsendur þess að við getum náð okkur út úr vandanum séu þær að við eigum góð samskipti við alþjóðasamfélagið, fáum lánafyrirgreiðslur á góðum kjörum og séum ekki í stríði við nágrannaþjóðirnar.

Það var tilgangurinn með Icesave-fyrirvörunum þegar við settum þá og samþykktum ríkisábyrgðina, við samþykktum samninginn með þeim fyrirvörum að við áskildum okkur rétt til að taka málið upp síðar ef forsendur breyttust. Við ætluðum einmitt að samþykkja hann og koma honum í gegn til að sleppa úr þeirri stöðu sem við virðumst fara í ef við ljúkum ekki málinu á næstu dögum. Það hefur aldrei komið fram þar að EES-samningurinn væri í hættu þannig að hægt er að taka undir að það er ekki það sem ógnar okkur mest. Það ógnar okkur mest að tryggingarsjóðurinn muni ekki geta staðið við skuldbindingar sínar og þá er fullkomlega í óvissu hvað við tekur ef ekki verður búið að ganga frá einhverju samkomulagi við Hollendinga og Breta. Það verða efnahags- og viðskiptaráðuneyti og tryggingarsjóðurinn að fjalla um. Ég vona að ég fái tækifæri til að ræða það betur á eftir. En ég ætla bara að segja að fjárlaganefnd vann alla sína vinnu meðvitað um að það hefði alvarlegar afleiðingar ef við gengjum ekki frá þessu samkomulagi.