138. löggjafarþing — 7. fundur,  14. okt. 2009.

atvinnumál.

[13:54]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Engin stund er ekki til og það er orð við hæfi þegar talað er um hvort ákvörðun umhverfisráðherra varðandi Suðvesturlínu muni hafa einhverjar tafir í för með sér vegna þess að það liggur alveg fyrir að svo mun verða. Hversu miklar þær verða er aftur óljóst mál en við höfum ekki þennan tíma. Og það er algerlega fráleitt að halda því fram að ráðherra valdi ekki töfum með aðgerðum sínum varðandi þetta mikilvæga verkefni, fyrir utan allt það uppnám sem þetta setur fjárfestingarkosti og fjármögnunarmöguleika þessa verkefnis í. Hv þm. Björgvin G. Sigurðsson sagði: Orkuöflun og fjármögnun skipta öllu máli, það er það sem skiptir öllu máli. Eru þá þessar aðgerðir og þau „komment“ sem hæstv. ráðherra hefur gefið frá sér eins og varðandi Orkuveitu Reykjavíkur til þess fallin að afla trausts þeirra sem eiga að koma með þetta fjármagn? Ég held ekki.

Það sem var einkar áhugavert við svar hv. þm. Björgvins G. Sigurðssonar við fyrirspurnum mínum áðan var að þegar ég spurði hann um stuðning hans og þingflokks hans við þessa aðgerð kom mjög óljóst svar. (Gripið fram í.) Er stuðningur í þingflokki Samfylkingarinnar við þá geggjuðu skattstefnu sem þessi ríkisstjórn hefur nú birt? Það er ljóst að sú yfirlýsing ein og sér mun koma í veg fyrir að erlendir fjárfestar líti til landsins, hún mun koma í veg fyrir (Forseti hringir.) að hér verði fjárfest af einhverju viti af erlendum aðilum, eins mikilvægt og það er.