138. löggjafarþing — 7. fundur,  14. okt. 2009.

atvinnumál.

[13:58]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Ég ætla einmitt að ræða um 23. október því að það gerist nefnilega dálítið merkilegt þá. Þá hefst greiðsluskylda innlánstryggingarsjóðs og það eru einkaaðilar í Hollandi sem ekki fengu tap sitt bætt. Þeir kynnu að gera kröfu á innlánstryggingarsjóðinn þann dag og krefjast ríkisábyrgðar eins og breska og hollenska ríkið hafa fengið. Þann dag gæti komið í ljós að Héraðsdómur Reykjavíkur þyrfti úrskurða um hvort það sé ríkisábyrgð á þessu. Þann dag taka Bretar og Hollendingar og allt bankakerfið í Evrópu þá áhættu að Héraðsdómur Reykjavíkur ákveði að það sé ekki ríkisábyrgð á þessu. (VigH: Rétt.) Þann dag taka Bretar og Hollendingar áhættu og jafnframt allt Evrópusambandið sem hefur verið að kúga okkur til að samþykkja þetta vegna þess að það óttaðist áhlaup á bankana, vegna þess að það óttast um traust almennings og fjármagnseigenda á bankakerfið í Evrópu, traust sparifjáreigenda á þessu innlánstryggingarkerfi. Ef það skyldi koma í ljós að Héraðsdómur Reykjavíkur eða seinna meir Hæstiréttur eða seinna meir EFTA-dómstóllinn eða hvaða dómstóll sem er segi að það sé ekki ríkisábyrgð á þessu er bankakerfið allt saman í hættu. Þess vegna segi ég: Það sem gerist 23. október er slæmt fyrir Breta og Hollendinga og Evrópusambandið og Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og Japani og alla þannig að við munum öðlast mjög sterka stöðu 23. október. (Gripið fram í: Rétt.)