138. löggjafarþing — 7. fundur,  14. okt. 2009.

þýðing á spurningum framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

25. mál
[14:17]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir á hrós skilið fyrir aðild sína og hlutdeild að íslenskri málstefnu. Ég tel að þær athugasemdir sem hún hefur verið með hér um þetta mál og tengjast einmitt framkvæmd íslenskrar málstefnu séu fullkomlega lögmætar.

Þegar þetta mál var rætt í þinginu í tengslum við fjáraukalög í fyrravor og síðan þegar tillagan um aðildarumsóknina fór í gegn bar þetta efni einfaldlega aldrei á góma. Ég segi hins vegar: Þingið ræður og þingið getur enn þá, ef það vill, ákveðið á fjárlögum að verja fjármunum í að standa undir þessu. Eins og sakir standa er það rétt sem hæstv. ráðherra sagði áðan, einstakir ráðherrar hafa með góðu samþykki utanríkisráðuneytisins ráðist í að þýða einstaka valda kafla sem taldir eru mikilvægir til að koma til móts við þessar óskir. Þetta er nokkuð sem við þurfum að skoða í framtíðinni varðandi framhaldið en því miður ræddi þingið þetta einfaldlega aldrei.