138. löggjafarþing — 7. fundur,  14. okt. 2009.

sameining háskóla.

26. mál
[14:23]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Ég lagði fram þessa fyrirspurn vegna þess að ég tel afar mikilvægt og brýnt að við fáum að vita afstöðu ráðherra háskólamála, ráðherra rannsókna, ráðherra vísinda, hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra, til sameiningar Háskóla Íslands og Háskólans í Reykjavík. Það hefur verið rætt um það nokkuð opinskátt að það eigi að sameina þessa háskóla.

Ég nálgast þetta út frá því sjónarhorni að þessi umræða er núna komin af stað. Menn reyna að skýla sér á bak við erfiða stöðu ríkissjóðs og ég held að það sé rangt. Ég held að það sé rangt að nálgast þetta þannig. Nú er einfaldlega komin upp í rauninni gallhörð pólitík. Núna sjá margir sængina uppreidda sem vilja bara að ríkið eitt og sér sjái um alla háskólamenntun hér á landi. Ríkisvaldið hefur staðið sig með ágætum hvað það varðar að byggja upp háskólamenntun, rannsóknir og vísindi. Við stóðum hins vegar frammi fyrir því fyrir um 10–12 árum, í því ríkisstjórnarsamstarfi sem var þá, milli Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, að það þurfti að fjölga verulega háskólamenntuðu fólki. Það var hægt að gera það á ýmsa vegu. Það var ákveðið að fara út í að koma hér á ákveðinni samkeppni. Við erum ekki að tala um gallharðan einkarekstur á háskólum. Við erum að tala um ákveðið afbrigði af samvinnu ríkisvalds og einkarekstrar og ég held að það hafi gefist með ágætum. Ég held að það hafi gefist vel, ekki bara að við náðum því takmarki okkar að fjölga háskólanemum, við þurftum að gera það. Við vorum mjög aftarlega á merinni í samanburði við önnur Evrópulönd, en við þurftum líka að auka fjölbreytni og samkeppni á sviði háskólamanna. Okkur tókst það. Síðan fórum við út í að sameina háskóla. Það voru ekki margir hér inni sem voru sammála því skrefi sem við tókum, að sameina Tækniháskóla Íslands og Háskólann í Reykjavík, en við tókum það pólitíska skref að sameina þá tvo skóla. Ég held að það hafi verið rétt.

Við tókum líka það pólitíska skref að sameina Kennaraháskóla Íslands og Háskóla Íslands, og ég held að það hafi líka verið rétt, með það að markmiði að efla kennaramenntun, bæta hana og styrkja. Til lengri tíma er þetta að mínu mati líka mikilvægt skref. Ég geld hins vegar varhuga við því og vara sérstaklega við því ef menn ætla að fara í að knýja fram sameiningu Háskóla Íslands og Háskólans í Reykjavík. Ég held miklu frekar að við eigum að líta það jákvæðum augum að við höfum tvo sterka háskóla á höfuðborgarsvæðinu og við eigum frekar að hvetja þá til aukinnar samvinnu og samstöðu á ákveðnum fræðasviðum en að taka það pólitíska skref — sem væri skref aftur á bak — að sameina Háskóla Íslands og Háskólann í Reykjavík og koma í rauninni allri (Forseti hringir.) háskólamenntun á suðvesturhorninu undir einn hatt, ríkishatt.

Ég spyr því hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra: Ætlar hún að beita sér fyrir sameiningu þessara háskóla og hver er skoðun hennar á því, ekki að skýla sér á bak við skýrslur og nefndir, heldur hver er skoðun hennar á því að sameina Háskóla Íslands og Háskólann í Reykjavík?