138. löggjafarþing — 7. fundur,  14. okt. 2009.

ókeypis skólamáltíðir.

39. mál
[14:35]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Birkir Jón Jónsson) (F):

Frú forseti. Í eðli sínu er ekkert ókeypis þannig að það væri kannski rétt að tala um gjaldfrjálsar skólamáltíðir í grunnskólum landsins frekar en ókeypis. Ég beini spurningu til hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra um ókeypis skólamáltíðir: Hefur ráðherra hug á því að beita sér fyrir ókeypis máltíðum í grunnskólum landsins, í samvinnu við sveitarfélög, í ljósi fjárhagserfiðleika margra fjölskyldna?

Við vitum að það harðnar á dalnum hjá mörgum, hjá ríkissjóði og kannski ekki hvað síst hjá fjölskyldunum í landinu, og það er ljóst að við munum öll þurfa að taka á okkur einhverjar byrðar í efnahagsþrengingunum fram undan. Þó tel ég að við þurfum að hlífa kannski þeim sem síst geta axlað byrðarnar, þ.e. ósjálfráða fólki, fólki sem er í námi við grunnskóla landsins og getur eðlilega ekki veitt sér framfærslu. Aðstæður barna hafa verið mismunandi á umliðnum árum en í ljósi efnahagsástandsins getum við reiknað með að aðstæður margra barna í samfélaginu muni versna til muna í ljósi þess að fjárhagur heimilisins er mjög erfiður. Þá velti ég fyrir mér hvort hæstv. ráðherra hafi eitthvað skoðað það og rætt við sveitarfélögin í landinu hvort það sé raunhæft úrræði að bjóða öllum grunnskólabörnum upp á holla og heita máltíð í hverju hádegi í grunnskólum landsins. Ef við lítum til reynslu margra annarra landa sem hafa gengið í gegnum kreppur, t.d. Finnlands, var á mörgum svæðum, til að mynda í Finnlandi, boðið upp á heitar skólamáltíðir fyrir nemendur sem eftir á að hyggja skipti margar fjölskyldur gríðarlega miklu máli. Það var mjög þröngt í búi á mörgum heimilum þar og við vitum að hér á landi verður mjög þröngt í búi hjá mörgum heimilum. Við hljótum öll að vilja stefna að því að börnin komist í gegnum þessa efnahagsörðugleika eins auðveldlega og hægt er og þar af leiðandi þarf að tryggja þeim holla og næringarríka fæðu og helst að allir eigi jafnt aðgengi að slíku innan veggja skólanna óháð félagslegri stöðu.

Ég minni á það, frú forseti, og væntanlega veit hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra það, að Vinstri græn hafa ályktað um þetta og lofuðu í aðdraganda síðustu kosninga ókeypis skólamáltíðum þar sem segir, með leyfi forseta:

„Tökum upp gjaldfrjálsar og hollar skólamáltíðir í grunnskólum landsins með aðkomu ríkisins svo kreppan bitni síður á heilsu og daglegu umhverfi barna.“

Ég er hjartanlega sammála þessu. Ég tel að við ættum þvert á flokka að geta sameinast um að feta einhverjar leiðir þannig að börn njóti jafnræðis hvað þessi mál varðar. Það er nauðsynlegt á þessum tímum en ég minni líka á það að sveitarfélögin sem mörg hver eiga mjög erfitt fjárhagslega um þessar mundir geta ekki ein og sér staðið undir því að veita þessa þjónustu gjaldfrjálst þannig að ég tel að ríkið þurfi að koma að þessu.