138. löggjafarþing — 7. fundur,  14. okt. 2009.

ókeypis skólamáltíðir.

39. mál
[14:44]
Horfa

Steinunn Valdís Óskarsdóttir (Sf):

Frú forseti. Hér er um mjög mikilvægt mál að ræða og ég þakka hv. þm. Birki Jóni Jónssyni fyrir að taka það upp. Það er rétt sem hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra sagði, það er auðvitað mjög mikilvægt að forgangsraða nú þegar við Íslendingar göngum í gegnum erfiða tíma í kreppunni. Ég vil hins vegar lýsa þeirri skoðun minni varðandi skólamáltíðir að ég hygg að þær séu í þokkalegu standi í dag, a.m.k. þar sem ég þekki til í Reykjavík þar sem yfirgnæfandi hluti nemenda notfærir sér þessa þjónustu og ég hygg að það séu í kringum 5.000 kr. að meðaltali sem fólk greiðir á mánuði fyrir máltíðir eins barns. Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef um þessi mál virðist ekki standa í fólki að greiða þá upphæð en engu að síður hafa t.d. skólarnir í Reykjavík gripið til þess ráðs að þar sem grunur leikur á að foreldrar hafi ekki efni á að kaupa þessar máltíðir hlaupi félagsþjónustan undir bagga. Ég held að það sé mjög mikilvægt að við höfum þetta öryggisnet þannig að þeir sem einhverra hluta geta ekki vegna staðið undir þessum kostnaði (Forseti hringir.) fái hjálp til þess frá hinu opinbera og þá er kannski sjálfsagt að ríkið komi þar inn í með sveitarfélögunum.