138. löggjafarþing — 7. fundur,  14. okt. 2009.

ókeypis skólamáltíðir.

39. mál
[14:45]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Birkir Jón Jónsson) (F):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra fyrir svörin og hv. þm. Steinunni Valdísi Óskarsdóttur fyrir innlegg hennar í þetta mál. Ég tel að hér sé um mikilvægt grundvallarmál að ræða. Ég fagna þeirri yfirlýsingu hæstv. ráðherra að hún ætli að taka þessi mál til nánari skoðunar. Þau þurfa að vera til sífelldar endurskoðunar vegna þess að fjárhagsmál heimilanna í landinu hafa breyst gríðarlega á undraskömmum tíma. Þess vegna þurfum við að vera vakandi hvað þessi mál varðar.

Hv. þm. Steinunn Valdís Óskarsdóttir nefndi það réttilega að þessi mál eru trúlega í ágætum málum á höfuðborgarsvæðinu en sveitarfélögin í landinu eru líka mismunandi sett. Mörg glíma við gríðarlega erfiða fjárhagsstöðu, eiga jafnvel mjög erfitt með að standa undir lögbundnum skuldbindingum sínum. Sérstaklega í þessu umhverfi held ég að við þurfum að skoða þessi mál upp á nýtt því að það er, eins og hæstv. ráðherra nefndi, ákveðið jafnaðar- eða velferðarhlutverk innan menntakerfisins að tryggja að börnunum geti liðið vel í skólunum. Til þess þurfa þau náttúrlega að hafa aðgengi að þessum hollum og góðu máltíðum sem flokkur hæstv. ráðherra lofaði í aðdraganda síðustu kosninga.

Ég vil svo sannarlega standa á bak við hana og flokk hennar í þeim efnum því að ég tel að þótt við mundum ekki gera þetta nema tímabundið í tvö eða þrjú ár á meðan við erum að koma okkur út úr þessum brimskafli sem kreppan er væri það örugglega mikilvægt fyrir margar fjölskyldur að þessar máltíðir væru gjaldfrjálsar. Það þýddi að viðkomandi börnum liði miklu betur innan veggja skólanna, næðu betri árangri í námi sem stuðlaði án efa að því að betri einstaklingar kæmu út úr slíku námi en ella.

Ég fagna því að hæstv. ráðherra ætli að skoða þessi mál nánar, vonandi þá í samstarfi við sveitarfélögin því að hér er um stórmál að ræða eins og hæstv. ráðherra nefndi þegar hún talaði um þær upphæðir sem við ræðum hér um.