138. löggjafarþing — 7. fundur,  14. okt. 2009.

fækkun opinberra starfa.

35. mál
[14:49]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Birkir Jón Jónsson) (F):

Frú forseti. Hæstv. fjármálaráðherra hefur nýlega lagt fram fjárlagafrumvarp fyrir árið 2010. Við gerum okkur öll grein fyrir því að það þarf að taka erfiðar og sársaukafullar ákvarðanir í þeim efnum. Hins vegar er margt óljóst þegar kemur að fyrirætlunum stjórnvalda og þá er ég sérstaklega að huga að opinberum störfum. Að sjálfsögðu þarf að draga saman í rekstri hins opinbera. Stór hluti af því er laun. Nýlegar fréttir af því að stórfækka eigi skattstjórum í landinu, sýslumönnum og fleiri stöðum hjá hinum opinbera leiða hugann að því hversu mörgum opinberum störfum muni fækka samkvæmt því fjárlagafrumvarpi sem við erum rétt nýbyrjuð að ræða hér. Hugmyndin er að heyra hugmyndir ráðherrans sem leggur frumvarpið fram, hvað hann áætli í fyrsta lagi að opinberum störfum fækki mikið á landsbyggðinni á næsta ári miðað við forsendur frumvarpsins og í öðru lagi hvað ætla megi að opinberum störfum fækki mikið á höfuðborgarsvæðinu á næsta ári miðað við forsendur frumvarpsins.

Eins og ég nefndi eru þær hugmyndir og þær leiðir sem ráðherrann hefur talað fyrir, um stórfækkun á mikilvægum embættum á Landspítalanum og hins vegar líka jafnvel stórfækkun á stöðugildum innan Landspítala – háskólasjúkrahúss, þar sem við höfum heyrt það frá forsvarsmönnum sjúkrahússins að segja þurfi þar upp 400–500 starfsmönnum að öllu óbreyttu.

Ég er að velta fyrir mér hugmyndafræðinni í þessu. Munum við eiga von á miklum uppsögnum á næsta ári vegna þeirra aðhaldsaðgerða sem ríkisstjórnin þarf að ráðast í? Eða munum við sjá að menn reyni að hagræða með einhverjum hætti þannig að fólk haldi starfshlutfalli sínu, jafnvel lækki eitthvað í launum og menn komist þannig frá gríðarlega miklum uppsögnum í samfélaginu? Ég tel að það sé lítil lausn að menn grípi til einhverra fjöldauppsagna hjá hinu opinbera eins og sakir standa. Það fólk á svo sannarlega ekki greiða leið aftur í örugga atvinnu og þar af leiðandi þarf Atvinnuleysistryggingasjóður að greiða því fólki laun. Ef maður hugsar um stóru myndina í því samhengi held ég að það væri affarasælla að fólk héldi störfum sínum þó að menn þyrftu að breyta mögulega einhverjum starfshlutföllum í stað þess að stórfækka á stofnunum hjá hinu opinbera.

Þetta eru fyrst og fremst spurningar mínar til hæstv. ráðherra í kjölfar þess að hann hefur lagt fram fjárlagafrumvarp sem vissulega felur í sér mjög erfiðar ákvarðanir. Við munum náttúrlega taka afstöðu til þeirra þegar að því kemur en eins og spurning mín hljóðar er ekki alveg sama hvernig að þeim ákvörðunum verður staðið.