138. löggjafarþing — 7. fundur,  14. okt. 2009.

fækkun opinberra starfa.

35. mál
[15:00]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Birkir Jón Jónsson) (F):

Frú forseti. Ég lýsi nú yfir mikilli undrun á því svari sem ég fékk frá hæstv. fjármálaráðherra sem var í örfáum orðum ekki neitt um það hvað mætti áætla að opinberum störfum mundi fækka mikið á landsbyggðinni þar sem hann sagði að engar slíkar forsendur eða áætlanir lægju fyrir. Hef ég nú starfað innan ráðuneytis og veit að innan hvers einasta fagráðuneytis er gengið á hverja einustu stofnun með það hvernig hún ætli að reka sig á næsta ári. Og viðkomandi stofnun þarf að leggja fram greinargerð til viðkomandi ráðuneytis um það til hvaða aðgerða hún ætli að grípa til að standast fjárlög. Mér sýnist að fjármálaráðuneytið hafi einfaldlega ekki nennt að sækjast eftir upplýsingum til fagráðuneytanna um hversu mörg störf mætti áætla að mundi fækka undir hverju fagráðuneyti. Mér finnst þetta því miður ekki gott svar hjá hæstv. ráðherra og í raun og veru sáralítið svar.

Sannast sagna kom mér á óvart hversu fljótur ráðherrann ætlaði að vera að svara þessum spurningum. Það hefur ekki verið gerð nein tilraun til þess að leita til fagráðuneytanna um það hver heildaráhrifin yrðu er varðar opinber störf á landsbyggðinni. Kannski kærir hæstv. ráðherra sig ekkert um að vita hvað þetta fjárlagaferli eða áætlanir stjórnvalda muni bera í skauti sér. Þetta liggur allt fyrir hjá fagráðuneytum.

Ég held að ég verði að endurtaka þessa spurningu og leggja hana fram á ný á vettvangi Alþingis með von um að fjármálaráðuneytið beini þeim sjálfsögðu spurningum til einstakra fagráðuneyta hvað þau áætli að opinberum störfum muni fækka annars vegar á landsbyggðinni og hins vegar á höfuðborgarsvæðinu á næsta ári miðað við forsendur fjárlaga. Það liggur allt saman fyrir og þetta var því miður ekkert svar hjá hæstv. ráðherra.