138. löggjafarþing — 7. fundur,  14. okt. 2009.

fækkun opinberra starfa.

35. mál
[15:02]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég tek því fagnandi ef hv. þingmaður spyr um þetta aftur og ég svara þá bara aftur í samræmi við aðstæður og efni máls.

Veruleikinn er sá að það að útfæra þessar sparnaðaraðgerðir og skila þeim árangri sem til þarf í rekstri viðkomandi fagráðuneyta og stofnana er í höndum forstöðumanna þeirra. Það er þeirra verkefni að reyna að útfæra það. Það er það sem nákvæmlega er í vinnslu þessa dagana. Núna liggja aðhaldskröfurnar fyrir. Verklagið hefur verið mótað og það er reynt að hafa það samræmt, en síðan verða auðvitað forstöðumenn á viðkomandi stað að hafa svigrúm til þess miðað við eðli máls og aðstæður, þau verkefni sem þar eru á ferðinni og þá möguleika sem þeir hafa til að útfæra aðgerðirnar þannig að sem fæst störf tapist. Það er væntanlega markmiðið.

Ég vona að hv. þingmaður sé ekki að spyrja vegna þess að hann langi í svör um að svo og svo mörgum hundruðum eða þúsundum manna verði sagt upp, enda viljum við ekki gefa slík svör. Okkar von er sú að það komi til sem allra fæstra beinna uppsagna og menn leiti leiða til að útfæra og ná þessum sparnaðarmarkmiðum eins og nokkur kostur er án þess.

Það væri óheiðarlegt að gefa einhver innistæðulaus loforð um að til slíks kæmi ekki. Það mun verða einhver fækkun. En fyrst og fremst verður samdrátturinn í vinnumagninu. Yfirvinna hefur dregist gríðarlega saman hjá hinu opinbera. Umsamdar greiðslur af ýmsu tagi eru meira eða minna horfnar. Með því tekur auðvitað fólk á sig kjaraskerðingu, en það heldur föstum umsömdum launum og vinnunni.

Ég held að hv. þingmenn þurfi ekki að hafa áhyggjur af því að þessar aðgerðir bitni sérstaklega á landsbyggðinni. Þvert á móti er núna landið allt undir. Þetta eru ekki aðgerðir af gamla taginu þegar menn reyndu að krukka í eitt og eitt embætti hér og þar úti á landi. Nú er allt landið undir. Og hagræðingin verður ekki síst mikil og þung hér, á höfuðborgarsvæðinu, þar sem flestir vinna, þar sem næststærstur hluti útgjaldanna fellur til í mörgum af stóru stofnununum. Það liggur alveg í hlutarins eðli.