138. löggjafarþing — 7. fundur,  14. okt. 2009.

aðsetur embættis ríkisskattstjóra.

36. mál
[15:04]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Birkir Jón Jónsson) (F):

Frú forseti. Það hefur valdið nokkurri ólgu í mörgum byggðarlögum þar sem skattstofur hafa verið staðsettar um áratugaskeið að nú hefur ríkisstjórnin og hæstv. fjármálaráðherra boðað það að leggja eigi niður embætti skattstjóra vítt og breitt um landið og sameina þau í eina stöðu, embætti ríkisskattstjóra. Skattstjóraembættin hafa verið veigamikil fyrir mörg byggðarlög. Ég vil minna á ræðu sem hv. 8. þm. Suðurk., Guðrún Erlingsdóttir, hélt hér áðan þar sem hún velti upp því álitaefni hvað verið sé að gera með þessum fjárlögum. Er í raun verið að ráðast gegn landsbyggðinni með því að lækka menntunarstigið þar? Ég get ekki séð annað en að með stórfækkun á sýslumönnum, héraðsdómstólum og skattstjórum sé beinlínis ráðist að mjög mikilvægum störfum í mörgum samfélögum. Það er grunnurinn að þeirri spurningu sem ég ber hér upp, af því að hæstv. fjármálaráðherra hefur oft talað hlýlega til landsbyggðarinnar, hvort honum finnist þá ekki efni til þess í ljósi þess að verið er að leggja niður embætti skattstjóra vítt og breitt um landið. Margir þeirra eru í óvissu um hvað bíði þeirra eftir næstu áramót. Mega þeir búast við því að fá atvinnu á þeim stað þar sem þeir búa núna? Eða getur verið að þeim verði boðin atvinna annars staðar og þeir þurfi að flytjast búferlum úr byggðarlaginu? Eða við hverju má búast? Þetta eru allt mjög óljósar áætlanir sem hæstv. fjármálaráðherra hefur boðað.

Þess vegna spyr ég í ljósi þess að verið er að leggja niður fjöldann allan af embættum skattstjóra vítt og breitt um landið hvort það komi til greina hjá hæstv. ráðherra að staðsetja þá embætti ríkisskattstjóra á landsbyggðinni, t.d. á Akureyri, til að stuðla að því að menntunarstig á landsbyggðinni haldi í við það sem er á höfuðborgarsvæðinu. Ef við ætlum að fækka menntuðum störfum á landsbyggðinni fækkar einfaldlega tækifærum unga fólksins sem fer og nær sér í ákveðna menntun til að flytjast aftur heim og vinna störf sem eru samboðin menntun þeirra. Þetta er algjört grundvallaratriði í byggðapólitík hvað ríkisstjórnin ætlar í þessum efnum. Á að skera kannski bestu ríkisstörfin á landsbyggðinni í þessum fjárlögum, á að flytja þau störf til Reykjavíkur eða setja þau miðstýrt í eitt embætti? Það verður gríðarlegt áfall fyrir mörg svæði á landsbyggðinni. Ég veit að hæstv. ráðherra er fullkunnugt um það.

Þess vegna spyr ég hæstv. ráðherra hvort honum finnist koma til greina að þetta embætti verði staðsett annars staðar en á höfuðborgarsvæðinu