138. löggjafarþing — 7. fundur,  14. okt. 2009.

aðsetur embættis ríkisskattstjóra.

36. mál
[15:12]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil bara ítreka það sem oft hefur komið fram í þessum ræðustól, þegar atvinnuleysið var sem mest úti á landsbyggðinni var það flutt til Reykjavíkur. Það gerðist með þeim hætti að íbúunum á landsbyggðinni fækkaði stöðugt, þeir fluttust hingað og höfðu hér atvinnu í þenslunni.

Ég ætla hins vegar ekkert að staldra við þetta. Ég þakka fyrirspyrjanda fyrir fyrirspurnina og eins hæstv. ráðherra fyrir svörin. Ég held einmitt að það sem hæstv. ráðherra boðar hér gagnvart skattstofunum sé bara nokkuð skynsamleg leið vegna þess að hann segir að menn ætli að styrkja skattstofurnar úti á landi og líka fela þeim þá sérhæfð verkefni. Ég verð að segja fyrir mína parta að þó að íhaldssemin sé yfirleitt mjög góð held ég að það sé bara skynsamleg nálgun að gera þetta með þessum hætti. Mér heyrist hæstv. ráðherra vera mjög meðvitaður um að það sé hægt að sérhæfa þetta eins og hann nefndi, landbúnaðarframtölin á einum stað og þar fram eftir götunum, og ég held í raun og veru að það sé mjög skynsamlegt að gera það með þessum hætti við þessar aðstæður.