138. löggjafarþing — 7. fundur,  14. okt. 2009.

aðsetur embættis ríkisskattstjóra.

36. mál
[15:16]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég gaf ekkert slíkt í skyn. (Gripið fram í.) Ég sagði að menn ættu ekki að reikna með öðru en að gildar og lögmætar ástæður gengju mönnum til þegar þeir færu í þessar breytingar. Það sneri í hina áttina sem ég talaði um hér. Það er alveg hárrétt hjá hv. þingmanni að ráðherrar mega ekki taka það illa upp að þeir séu spurðir eða gagnrýndir en þingmenn mega heldur ekki taka illa upp að þeim sé svarað. Það verður hv. þingmaður líka að hafa í huga. (BJJ: Ef maður fær svörin.) Ég hef það svolítið á tilfinningunni að hv. þm. Birkir Jón Jónsson vilji ekki bara ráða spurningunum heldur líka svörunum en það er ekki alveg þannig sem þetta (BJJ: Það væri nú munur.) gengur fyrir sig.

Af því hv. þm. Ásbjörn Óttarsson spurði áðan um atriði sem ég hafði ekki tíma til að svara í fyrirspurn ætla ég að syndga upp á náðina og reyna að svara því. Mér ekki kunnugt um hvaða skoðun er í gangi milli dómsmálaráðherra og félagsmálaráðherra varðandi verkaskiptingu sem tengist sýslumannsembættum, Tryggingastofnun, Vinnumálastofnun og fleiri þáttum sem þar eru í skoðun. Ég veit að þarna er ýmislegt í skoðun en mér er ekki kunnugt um að nein niðurstaða liggi fyrir í þeim efnum eða neinar ákvarðanir hafi verið teknar. Sömuleiðis er svokölluð sóknaráætlun 20/20 í vinnslu. Þar eru m.a. unnar í samstarfi við fjölmarga aðila hugmyndir að skýrari svæðaskiptingu landsins sem yrði lögð til grundvallar ýmiss konar endurskipulagningu og samþættingu áætlana á ýmsum sviðum þannig að stuðnings- og stoðkerfi, áætlanagerð og annað í þeim dúr vinni betur saman.

Það er alveg rétt hjá hv. þm. Birki Jóni Jónssyni fyrirspyrjanda að þegar svona breytingar eru í aðsigi valda þær óvissu, fólk verður skiljanlega óöruggt og vill fá upplýsingar og það á heimtingu á þeim. Þess vegna skiptir miklu máli að reynt sé að vinna þetta vel með starfsfólki og forstöðumönnum, miðla (Forseti hringir.) upplýsingum og fullvissa fólk um hvernig með málin verði farið og í hvaða stöðu það verði. Það verður reynt.