138. löggjafarþing — 7. fundur,  14. okt. 2009.

gengistryggð bílalán.

37. mál
[15:18]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Birkir Jón Jónsson) (F):

Frú forseti. Í sumar beindi ég fyrirspurn til hæstv. viðskiptaráðherra þar sem ég spurði um aðstæður þeirra sem skulda bílalán eða eru með veð í bílum í erlendri mynt. Hjá hæstv. ráðherra kom fram að um ríflega 40 þúsund einstaklinga er að ræða og að heildarupphæð umræddra lána væri rétt ríflega 115 milljarðar kr. Þetta sýnir náttúrlega hvert umfang vandans er. Ef við gerum ráð fyrir að á bak við þessa 40 þúsund Íslendinga séu aðrir 2,5, eða jafnvel fleiri, þá erum við að tala um á annað hundrað þúsund manns sem þessi mál tengjast með beinum eða óbeinum hætti. Eins og hæstv. ráðherra gerir sér vitanlega grein fyrir er hér því um gríðarlegan vanda að ræða. Margir hafa á undangengnum mánuðum haft samband við okkur þingmenn um hvað standi til að gera til þess að koma til móts við þennan gríðarlega vanda sem margar fjölskyldur eru því miður í.

Hæstv. félagsmálaráðherra Árni Páll Árnason boðaði aðgerðir nýlega vegna skuldavanda. Það var í raun og veru í síðasta mánuði, þann 26. september. Nú er kominn 14. október og ekki bólar á neinum tillögum hér á þingi í þeim efnum, hvers þeir einstaklingar sem skulda erlend bílalán mega vænta. Hæstv. ráðherra nefndi í sumar að starfshópur ynni á fullu í þessum málum. Starfshópurinn væri á vegum viðskiptaráðuneytis, félags- og tryggingamálaráðuneytis og dómsmálaráðuneytis og að þessi hópur væri að kanna hvort hægt væri að grípa til einhverra aðgerða vegna bílalána í erlendri mynt. Spurning mín er einfaldlega sú, til þess að fylgja eftir þeirri spurningu sem ég spurði hæstv. ráðherra í sumar: Hefur þessi starfshópur skilað formlega af sér?

Við höfum því miður ekki séð neinar tillögur í lagaformi. Í dag njóta þeir sem skulda bílalán í erlendri mynt ekki samræmdra reglna, m.a. hjá viðskiptabönkunum. Engin tilmæli hafa komið frá ríkisstjórninni um það nákvæmlega hvernig lánastofnanir á vegum hins opinbera eiga að afgreiða þá sem skulda bílalán, hvað þá hjá einkaaðilum. Það sem við köllum eftir er því að einhver þingmál komi fram sem komi til móts við þennan mikla vanda sem margir eru í og við hér á vettvangi Alþingis getum síðan afgreitt sem lög, því vandinn er mikill. Eins og ég sagði áðan er tilgangurinn með þessari fyrirspurn að inna hæstv. ráðherra eftir því hvað líði aðgerðum til handa þeim sem skulda erlend bílalán.