138. löggjafarþing — 7. fundur,  14. okt. 2009.

gengistryggð bílalán.

37. mál
[15:27]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Birkir Jón Jónsson) (F):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin og segi eins og í fyrri fyrirspurn að ég vonast til þess að við förum að sjá lagafrumvörp hér á vettvangi Alþingis sem mæla fyrir um úrbót mála þeirra sem skulda húsnæðislán og erlend bílalán. Vissulega eru þetta spor í rétta átt en við munum væntanlega á vettvangi nefnda fara betur yfir þessi mál þegar að því kemur. Aðalatriðið er að menn beiti sér fyrir því að leggja þessi mál fram hið fyrsta því við þurfum að samræma verklagsreglur hvað þessi mál áhrærir. Það er ljóst að verið er að greiða úr vanda þeirra sem skulda bílalán með mismunandi hætti sem er eðlilegt í ljósi þess að engin umgjörð er um þennan markað eins og sakir standa. Það er algjör lífsnauðsyn fyrir fólk í þessum aðstæðum að við mótum löggjöf til þess að vinna bug á þessum bráðavanda sem blasir við mörgum fjölskyldum.

Trúlega hefði ég átt að beina þessari fyrirspurn til hæstv. félagsmálaráðherra í ljósi þess að hann kemur væntanlega á endanum fram með pakka inn í þingið sem þessi mál áhrærir. Það verður væntanlega gert síðar á þessu hausti ef ekki bólar á aðgerðum. Ég treysti því og þeim orðum hæstv. ráðherra að nú förum við að sjá eitthvað koma hér inn í sali þingsins sem mun stuðla að því að gera skuldugum heimilum, hvort sem þau skulda húsnæðislán eða bílalán, lífið léttbærara í því árferði sem blasir við. Þessar fjölskyldur mega ekki við því að bíða í vikur eða mánuði til viðbótar enda stend ég í þeirri trú að von bráðar eigi að leggja fram frumvarp þessa efnis á vettvangi þingsins.