138. löggjafarþing — 7. fundur,  14. okt. 2009.

gengistryggð bílalán.

37. mál
[15:29]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Gylfi Magnússon):

Virðulegi forseti. Ég held ég geti tekið undir flest ef ekki allt það sem kom fram í ræðu hv. þm. Birkis Jóns Jónssonar. Til skýringar ítreka ég að það er von á lagafrumvarpi frá hæstv. félagsmálaráðherra. Ég tala að sjálfsögðu ekki fyrir hans hönd hér en þetta liggur fyrir og verður án efa gert mjög fljótt. Það gæti þess vegna komið inn í þingið á allra næstu dögum, í og með vegna þess að við þessa vinnu hefur verið miðað við að úrræðin verði virk í nóvembermánuði, vonandi 1. nóvember. Það er því ekki mikill tími til stefnu ef breyta þarf lögum fyrir þann tíma.

Ég vil jafnframt taka fram að mörg þeirra úrræða sem hafa verið kynnt eða verða fyrirsjáanlega kynnt vegna skuldavanda heimila, hvort sem er vegna bílalána eða íbúðalána, byggja ekki á lagabreytingum, a.m.k. ekki einum og sér. Við höfum náð talsverðum árangri í samstarfi og samkomulagi við lánveitendur. Einhverju verður hugsanlega náð fram með tilmælum sem þeir fallast á að fara eftir og því verður ekki allt neglt niður með lögum en hins vegar er óhjákvæmilegt að breyta lagarammanum. Reyndar mun eitthvað af því heyra undir dóms- og mannréttindaráðuneyti en megnið af því mun heyra undir félagsmálaráðuneyti.