138. löggjafarþing — 7. fundur,  14. okt. 2009.

Skógrækt ríkisins.

43. mál
[15:34]
Horfa

umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Birki Jóni Jónssyni fyrir þessa fyrirspurn. Eins og kunnugt er standa íslensk stjórnvöld frammi fyrir mesta niðurskurði í rekstri og útgjöldum stofnana ríkisins fyrr og síðar á lýðveldistímanum. Ríkisstjórnin hefur við þessar aðstæður einsett sér að leita allra leiða til þess að tryggja að áhrif þessa niðurskurðar verði eins lítil og kostur er á þjónustustig, þjónustugæði og fækkun opinberra starfa. Hagræðing af hvaða tagi sem er sem fullnægir þessum skilyrðum er því nú til skoðunar í öllum ráðuneytum.

Ein þeirra leiða sem bent hefur verið á að geti tvímælalaust leitt til hagræðingar er sameining opinberra stofnana og fækkun ráðuneyta. Það hefur lengi verið gagnrýnt m.a. af Ríkisendurskoðun að stofnanakerfi ríkisins sé of flókið, stofnanir of margar og smáar og því geti falist margvísleg tækifæri til hagræðingar og sparnaðar í fækkun þeirra án þess að þjónusta sé skert.

Síðastliðið vor fékk umhverfisráðuneytið ráðgjafarfyrirtækið Capacent til að vinna hugmyndir að hagkvæmum sameiningum stofnana og tilflutningi verkefna á grundvelli forstöðumanna stofnana ráðuneytisins. Þessar hugmyndir voru kynntar fyrir ráðuneytinu og forstöðumönnum stofnana 25. september sl. og hafa forstöðumenn nú gefið ráðuneytinu umsögn um einstakar hugmyndir og tillögur Capacent. Frekari úrvinnsla þessara hugmynda fer nú fram í ráðuneytinu en tekið skal fram og áréttað hér að engin afstaða hefur enn verið tekin til einstakra tillagna eða hugmynda Capacent af hálfu ráðuneytisins eða þeirrar sem hér stendur.

Ég á því mjög erfitt með því að svara þeirri spurningu hv. þingmanns afdráttarlaust hér og nú hvort staðinn verði vörður um sjálfstæði Skógræktar ríkisins og tryggt að höfuðstöðvar stofnunarinnar verði áfram á Egilsstöðum. Hins vegar get ég sagt að hver svo sem niðurstaðan úr þeirri skoðun sem nú fer fram í ráðuneytinu verður mun ég leggja mig fram um að tryggja að það mikilvæga starf sem Skógrækt ríkisins sinnir nú verði ekki fyrir borð borið og að ekki verði dregið úr þeirri starfsemi nú fer fram á Egilsstöðum vegna starfsemi Skógræktar ríkisins.

Annars finnst mér efni umræddrar fyrirspurnar hv. þingmanns vekja upp fleiri og kannski mun áhugaverðari spurningar sem ég tel mjög mikilvægt að ræða nánar á Alþingi nú á þessum erfiðu tímum í rekstri ríkisins. Við gætum án efa öll spurt hliðstæðra spurninga um sérhverja aðra ríkisstofnun. Ef hvorki má breyta sjálfstæði stofnunar né flytja höfuðstöðvar hennar erum því í raun og veru að segja að engu megi breyta í stofnanauppbyggingu íslenska stjórnkerfisins. Ég geng hins vegar út frá því að þegar betur er að gáð séum við öll sammála hér á hinu háa Alþingi um að eðlilegt sé að útiloka enga möguleika til hagræðingar í opinberum rekstri ef þeir uppfylla þau meginskilyrði sem ég nefndi í upphafi máls míns, þ.e. að valda ekki óæskilegum áhrifum á þjónustugæði og þjónustustig og leiða ekki til frekari fækkunar starfa. Í því efni er líka rétt að hafa byggðasjónarmið að leiðarljósi og skyldi nú síst standa á fyrrverandi varaformanni Sambands íslenskra sveitarfélaga að gera það.

Ég tel mjög mikilvægt í þeirri endurskoðun á stofnanauppbyggingu stjórnsýslunnar sem nú fer fram að lögð verði áhersla á að opinberum störfum á landsbyggðinni verði ekki fækkað, þótt einhver flutningur starfa milli landshluta geti átt sér stað og sé nauðsynlegur til að ná fram heildarhagræðingu. Því kann að verða nauðsynlegt að skoða allar breytingar á stofnanakerfinu sem nú eru til skoðunar í ráðuneytunum í nánara samhengi en ekki einblína um of á breytingar á einstökum stofnunum.