138. löggjafarþing — 8. fundur,  15. okt. 2009.

atvinnu- og orkumál.

[10:44]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Á síðustu dögum og í rauninni vikum hafa okkur landsmönnum birst ótrúlegar þversagnir og makalausar fullyrðingar af hálfu ráðherra í ríkisstjórn Íslands. Það er auðvitað hægt að eyða mörgum orðum á Icesave en mér eru atvinnu- og orkumálin hugleikin.

Við sjáum ótrúlegar þversagnir í því að annars vegar ætla fjármálaráðherra og iðnaðarráðherra að reyna að skattleggja allan kraft út úr þeirri atvinnustarfsemi sem tengist orkumálum á meðan umhverfisráðherra kemur fram með sínar fullyrðingar og talar í rauninni niður eitt orkufyrirtæki. Það er greinilega ný stjórnsýsla að ráðherra umhverfismála ætlar núna að láta rekstrarreikning fyrirtækja ráða því hver hennar stjórnsýslulega niðurstaða í málum er. Það er nýlunda og þess vegna vil ég spyrja forsætisráðherra hvort hún telji ummæli umhverfisráðherra um Orkuveituna heppileg.

Í öðru lagi vil ég sérstaklega spyrja hæstv. forsætisráðherra varðandi yfirlýsingu Suðurnesjamanna um að hvetja ríkisstjórnina áfram í því að afturkalla ákvörðun umhverfisráðherra þannig að verkefnin á Suðurnesjum geti haldið áfram. Þetta hefur mikla þýðingu hvað stöðugleikasáttmálann varðar.

Það skiptir miklu máli að stöðugleikasáttmálinn haldi og það blasir við að ef einhver er að klúðra stöðugleikasáttmálanum þá er það ríkisstjórnin. Það gengur ekki.

Í þriðja lagi vil ég gjarnan fá að vita hvert viðhorf forsætisráðherra er til þess að við sjáum iðnaðarráðherra, sem vissi reyndar ekki að það ætti að borga 1 kr. á kílóvattsstund, og fjármálaráðherra á uppboðsmarkaði í fjölmiðlum varðandi hversu mikið eigi að borga fyrir kílóvattsstundina. Iðnaðarráðherra sagði að það yrðu 10 aurar á kílóvattsstund meðan fjármálaráðherra sagði: Orkufyrirtækin eiga að borga 30 aura á kílóvattsstund. Hver er afstaða forsætisráðherra til þessara mála? Hver er hennar hugmynd varðandi orkuskatt? Það er alveg ljóst að ríkisstjórnin ætlar sér að skattleggja þessar greinar á fullu. Hver er afstaða forsætisráðherra í þessa veru?