138. löggjafarþing — 8. fundur,  15. okt. 2009.

málefni hælisleitenda.

[10:54]
Horfa

dómsmála- og mannréttindaráðherra (Ragna Árnadóttir):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrirspurnina. Ég ætla að taka fram í upphafi að eins og þingheimi er kunnugt byggist ákvörðun í svona málum á lögum og reglum og almennum mælikvörðum og ákvörðun um brottvísun, hvort sem það er brottvísun eða dvalarleyfi, er ekki geðþóttaákvörðun ráðherra.

Það hefur komið fram í þessum sal að Grikklandsmál hafa verið til skoðunar í ráðuneytinu. Hvort sem mönnum líkar betur eða verr er lagaumhverfið þannig að við erum aðilar að Dyflinnar-samstarfinu sem byggist á því að þegar eitt Dyflinnar-ríki endursendir fólk til annars ríkis er það vegna þess að hælismeðferð fer þá fram í því ríki sem það er sent til. Í tilviki Grikklands er það þá þannig að þeir sem sendir eru héðan til Grikklands fá meðferð mála sinna þar.

Það er rétt að Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna hefur tekið afstöðu gegn því að hælisleitendur verði sendir til Grikklands. Einmitt þess vegna hefur farið fram ítarleg athugun í ráðuneytinu á aðstæðum þar og ég undirstrika hér að það er ekkert Dyflinnar-ríki sem hefur ákveðið að endursenda ekki hælisleitendur til Grikklands. Norðurlöndin, sem við miðum okkur við, endursenda öll hælisleitendur til Grikklands og það gerum við einnig.

Hvað varðar fullyrðingar um málsmeðferð í einstaka málum tek ég fram að ég fer ekki inn á þær hér. Ég hef fullvissað mig um að hér hefur verið farið að lögum og reglum og kem kannski inn á það í seinna svari, en ég ítreka að þetta er ekki geðþóttaákvörðun.