138. löggjafarþing — 8. fundur,  15. okt. 2009.

málefni hælisleitenda.

[10:57]
Horfa

dómsmála- og mannréttindaráðherra (Ragna Árnadóttir):

Virðulegi forseti. Ráðuneytið hefur birt sérstaka skýrslu um þá ákvörðun að endursenda eigi fólk til Grikklands. Þar eru tekin fram þau gögn sem liggja til ákvörðunar, þarna eru almennir mælikvarðar settir til grundvallar þeirri stefnu sem tekin er. Skýrslan var kynnt á allsherjarnefnd Alþingis og síðan birt á vef ráðuneytisins.

Ég ítreka að við tökum einmitt mið af framkvæmd í Noregi, mál hvers og eins er skoðað og afstaða er tekin til þess hvort endursenda eigi viðkomandi til Grikklands. Ég vil benda á að staðfesting Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna á að aðstæður í Grikklandi hafi breyst til hins betra, barst núna í vor, árið 2009. Ég vil benda á að þeir einstaklingar sem var vísað brott héðan til Grikklands á grundvelli Dyflinnar-reglugerðarinnar lenda ekki í flóttamannabúðum eins og fullyrt hefur verið, heldur er tekið á móti þeim á flugvellinum í Grikklandi, í Aþenu, og þeim veitt þar sérstök skilríki.