138. löggjafarþing — 8. fundur,  15. okt. 2009.

mögulegt lán frá Norðmönnum óháð AGS.

[11:16]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Það er vert að geta þess í upphafi máls míns að það er þingræði hér á Íslandi og það er þingræði í Noregi. Það er ágætt að halda því til haga.

Í fyrravor var ákveðið að Norðmenn skyldu ásamt öðrum Norðurlandaþjóðum lána Íslendingum en að lánið skyldi um leið tengt lánafyrirgreiðslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Per Olaf Lundteigen, talsmaður norska miðjuflokksins í efnahags- og fjármálum og aðili flokksins í fjárlaganefnd, sá meðal annarra um útfærslu á láninu. Þetta kom skilmerkilega fram í fréttum Fréttablaðsins í gær. Það sem hins vegar vantaði í þá frétt var sú staðreynd að fyrrnefndur þingmaður barðist fyrir því á sama tíma að Norðmenn ættu að koma bræðrum sínum á Íslandi til hjálpar með stóru láni á milli landanna. Þetta lét hann bóka við meðferð málsins og fylgdi því svo eftir í ræðu á Stórþinginu. Væri óskandi að menn héldu því til haga sem réttara reynist.

Það hefur staðið í mörgum Íslendingum af hverju svo virðist sem Norðmenn taki undir málstað Hollendinga og Breta í Icesave-deilunni. Þannig hefur það birst mörgum Íslendingum. Sem betur fer fékk ég tækifæri til að leiðrétta þann málflutning þegar ég fór til Noregs fyrir um þrem vikum. Norðmenn eru fullir velvilja í garð Íslendinga. Þeir segja hins vegar að ef Íslendingar vilja lán óháð lánum hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum þurfi að berast formleg beiðni frá Íslendingum um slíkt. Sá er mergurinn málsins. En svo virðist sem þessi tíðindi hafi farið illa í Samfylkinguna. Keppst var við að gera lítið úr Lundteigen sem hafði það helst unnið sér til saka að reynast mikill vinur Íslendinga í raun. Sú mynd var dregin upp af honum að hann væri sérvitringur, kæmist skemmtilega að orði en væri algjörlega einn á ferð með þessa skoðun sína. Í sjálfu sér væri hægt að draga upp skrýtna mynd af hvaða þingmanni sem er væri viljinn til staðar, t.d. mætti draga þá skemmtilegu mynd af hæstv. fjármálaráðherra Steingrími J. Sigfússyni að þar væri á ferðinni sérvitur vörubílstjóri sem hefði verið á móti bjórnum á sínum tíma.

Svo væri hægt að ganga lengra og segja frá þeirri skemmtilegu staðreynd að sami þingmaður fór til Noregs fyrir um ári að biðja um lánafyrirgreiðslu. Hvílíkur illi, mundu blogglúðrasveitarmeðlimir Samfylkingarinnar segja. Eða hvað? Var þingmaðurinn ekki bara að gera það sem hann var kosinn til að gera? Gæta hagsmuna þjóðar sinnar, leita allra leiða til að forða Íslendingum frá þjóðargjaldþroti. Hvaða fréttir bar hann heim? Jú, að leiðin væri opin. Hefur hún lokast? Nei. Sá er mergurinn málsins. Leiðin er vel fær en því miður var ákveðið á sínum tíma að leita á náðir Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Það voru stór mistök.

Munurinn á ferð okkar hv. þm. Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar og ferð hæstv. utanríkisráðherra Steingríms J. Sigfússonar fyrir um ári er kannski fyrst og fremst sá að við fórum ekki á eigin vegum. Við fengum formlegt boð frá norska miðjuflokknum um að koma út, kynna málstað Íslendinga og ræða mögulega lánalínu á milli landanna. Það hefði verið fullkomlega ábyrgðarlaust að hafna slíku boði.

Hvaða fréttir bárum við heim? Jú, norski miðjuflokkurinn stendur heils hugar á bak við þingmann sinn, Per Olaf Lundteigen. Hann er með skýrt umboð bæði frá formanni sínum og öllum þingflokknum. Í mínum huga er það stórfrétt þegar einn af þremur flokkum sem eiga sæti í nýskipaðri ríkisstjórn Noregs kemur fram og gefur út þessa yfirlýsingu, jafnvel þó að það hugnist ekki öllum.

Við bárum einnig þær fréttir að við teldum góðar líkur á því að meiri hluti væri fyrir því innan norska Stórþingsins að lána Íslendingum óháð AGS. Við hittum fulltrúa allra flokka sem eiga sæti á Stórþinginu, formenn, varaformenn, ráðherra, aðila úr fjárlaganefnd og talsmenn í utanríkismálum. Við vitum vel að Stoltenberg hefur komið fram og sagt að hann vilji fylgja þeirri leið sem nú er verið að fara. En höfum eitt í huga, það er þingræði á norska þinginu (Forseti hringir.) og ég beini þeim tilmælum til hæstv. forsætisráðherra að við Íslendingar sendum formlega beiðni (Forseti hringir.) til Noregs og látum reyna á það alla leið hvort Norðmenn geti ekki orðið okkur úti um hóflega lánalínu í staðinn (Forseti hringir.) fyrir þau okurlán sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn (Forseti hringir.) er að neyða okkur til að taka.