138. löggjafarþing — 8. fundur,  15. okt. 2009.

mögulegt lán frá Norðmönnum óháð AGS.

[11:22]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Það vakti athygli mína um síðustu mánaðamót að Per Olaf Lundteigen, þingmaður á Stórþinginu, greindi frá því í viðtali við vefmiðil að hann hefði fyrir hönd norska miðflokksins sagt Höskuldi Þórhallssyni alþingismanni að flokkurinn væri reiðubúinn að veita Íslandi allt að 100 milljarða norskra króna lán. Síðan var því slegið upp í íslenskum fjölmiðlum og haft eftir hv. þm. Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni að norskir fjárlaganefndarmenn segðu Norðmenn reiðubúna að lána Íslandi 100 milljarða norskra króna eða opna lánalínu upp á rösklega 2.000 milljarða króna. Eina vandamálið við þetta höfðinglega boð var að sögn það að ríkisstjórn Íslands þyrfti að gefa merki um að hún óskaði eftir þessu láni eða setja fram formlega ósk um það eins og krafist var af hálfu Framsóknarflokksins. Þetta kom mér á óvart, enda ættu skilyrðin fyrir norræna lánapakkanum og lánsloforðum Noregs að vera öllum kunn og skjalfest af þjóðþingi ríkjanna fjögurra og fjármálaráðuneytum þeirra og ég hafði áður rætt þessi lánamál við forsætisráðherra Norðurlandanna sem og við fjármálaráðherra Noregs.

Ég hefði ekki lagt eyru við upphrópunum hv. þm. Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar vegna þessa lánatilboðs nema vegna þess að Lundteigen sagðist tala í nafni norska miðflokksins sem er einn stjórnarflokkanna í rauðgrænu stjórninni sem fengið hafði endurnýjað umboð. Þess vegna ákvað ég að kanna málið sérstaklega hjá Jens Stoltenberg í miðjum stjórnarmyndunarviðræðum með óformlegum hætti, og í bréfi til hans spurði ég hvort tilboð Lundteigens væri raunhæft. Svarið þekkjum við á sama hátt og afstöðu norska fjármálaráðherrans í fjárlagaræðu sinni núna í vikunni. Hefðu þau gefið ádrátt um stefnubreytingu hefði ég að sjálfsögðu sett málið í formlegan farveg.

Það vakti líka athygli mína þegar hv. þingmenn komu heim frá Noregi að þeir skyldu ekki ganga á minn fund. Þeir sáust að vísu á stjórnarráðströppunum þennan dag en það var aðallega held ég til að tala við hv. þm. Ögmund Jónasson sem átti þá fund með mér. Ég skildi aldrei af hverju þeir leituðu ekki eftir viðtali við mig um þetta mál til að fara yfir stöðuna. (VigH: Forsætisráðherra …) Ég tel því að málatilbúnaður hv. framsóknarþingmannanna tveggja í þessu lánamáli hafi verið afar sérkennilegur. Öll sviðsetningin hefur verið með þeim hætti að minnir helst á söguna um fjöðrina sem varð að fimm hænum. Í ljós hefur meira að segja komið að stórþingsmaðurinn Lundteigen undirritaði sjálfur lánaskilyrði Norðmanna 5. maí sl. og einnig að hann er ekki lengur í fjárlaganefnd þingsins þótt því hafi verið haldið að Íslendingum. Með leyfi forseta ætla ég að lesa úr eftirfarandi grein sem birtist á (Gripið fram í: Þetta er ekki rétt.) netinu nýlega, svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Það að lýsa því yfir í fjölmiðlum að við getum vandræðalaust sótt um 2.000 milljarða lán frá Norðmönnum, eftir samtal við einn frekar sérvitran þingmann er pólitískur barnaskapur. Slíkt er ekki fallið til þess að leysa neinn vanda. (Gripið fram í: Ertu að lesa blogg …?)

Það að bera á borð fyrir almenning slúðursögur og samsæriskenningar um að forsætisráðherra þjóðarinnar sé af annarlegum hvötum að vinna gegn lánveitingu getur í besta falli kallast óviðeigandi.“ (VigH: Hver …?)

Ég segi hér: Þetta eru hvorki mín orð né annarra álitsgjafa úr Samfylkingunni. Nei, þetta eru orð lögfræðings sem var aðstoðarmaður varaformanns Framsóknarflokksins þar til nýverið, hv. þm. Birkis Jóns Jónssonar. Hann segir með öðrum orðum að þetta sé ekki fallið til að leysa neinn vanda, það að bera á borð fyrir almenning slúðursögur og samsæriskenningar um að forsætisráðherra þjóðarinnar sé af annarlegum hvötum að vinna gegn lánveitingum geti í besta falli talist óviðeigandi.

Virðulegi forseti. Hv. þm. Höskuldur Þórhallsson gekk svo langt að halda því fram að ég hefði framið skemmdarverk með viðbrögðum mínum við þessum fráleita málatilbúnaði hv. framsóknarþingmannanna tveggja, og ég spyr: Er ekki fulllangt gengið að halda því blákalt fram að forsætisráðherra Íslands beiti sér og berjist gegn hagsmunum þjóðarinnar? (SDG: Í mörgum málum.) Þetta er auðvitað rakinn þvættingur (Gripið fram í: Drepa niður …) og ég spyr: Er þetta virkilega framlag hans og Framsóknarflokksins til (Gripið fram í: Hvar er …?) uppbyggilegrar rökræðu á Íslandi sem formaður flokksins segir Framsóknarflokkinn bera skyldu til að fylgja?