138. löggjafarþing — 8. fundur,  15. okt. 2009.

mögulegt lán frá Norðmönnum óháð AGS.

[11:27]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Síðar í dag munum við þingmenn fá tækifæri til að ræða efnahagstillögur okkar sjálfstæðismanna. Þar bendum við m.a. á að við teljum rétt að endurskoða samkomulag og samskipti okkar við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, AGS, og kannski ekki síst í ljósi þeirra orða sem féllu áðan hjá forsætisráðherra, að það er alveg ljóst að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn er undir ákveðinni kúgun af hálfu Evrópusambandsins þar sem ríki þess misnota sér greinilega sjóðinn og það gagnvart okkur. Hefðum við gjarnan viljað sjá forsætisráðherra standa betur í lappirnar gagnvart því batteríi öllu saman.

Við komum að þeirri umræðu á eftir varðandi Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Í umræðunni hér núna er greinilegt, miðað við orð forsætisráðherra, að hún snýst fyrst og fremst um ferð framsóknarmanna til Noregs. Ég held að við verðum að taka viljann fyrir verkið hvað þetta varðar hjá framsóknarmönnum því að þeir eru í rauninni að gera það sem þeir geta til að finna aðrar leiðir en það einstigi sem ríkisstjórnin er búin að setja og ætlar sér að festast í varðandi Icesave og samskipti við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Það er hálfnöturlegt, það er hálfömurlegt að upplifa hvernig forsætisráðherra og spunameistarar hennar tala trekk í trekk niður til framsóknarmanna. Framsóknarmenn eru að gera það sem við sjálfstæðismenn erum m.a. að gera í dag, koma með útrétta sáttarhönd. Við viljum fara í ákveðin verk saman, skoða alla möguleika, t.d. að forðast skattahækkanir, skoða aðrar leiðir, ekki hefðbundnar leiðir eins og Samfylkingin og Vinstri grænir ætla að fara með því að hækka skatta.

Það sama eru framsóknarmenn að gera með ferð sinni til Noregs, kanna alla möguleika til að koma Íslendingum út úr þeirri sjálfheldu gagnvart Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og Icesave sem ríkisstjórn Íslands er búin að koma okkur í. Þess vegna bið ég forsætisráðherra að tala ekki með þeim hætti sem hún hefur gert gagnvart framsóknarmönnum, frekar að virða það sem þeir hafa gert — og ekki skrifa aftur svona bréf fyrir hönd Íslands: Fyrirgefið að ég skuli vera að ónáða. Þetta er eins og konan á Suðurlandinu sem fékk gesti í kaffi og sagði: Viljið þið nokkuð kaffi?